Jóhanna Sigurðardóttir: „Mikilvæg skilaboð út á markaðinn"

Lækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs er ætlað að draga úr þenslu.
Lækkun lánshlutfalls Íbúðalánasjóðs er ætlað að draga úr þenslu.
Eftir Rósu Björk Brynjólfsdóttur rosabjork@mbl.is Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, segir að ákvörðun um að lækka hámarkslánhlutfall Íbúðalánasjóðs úr 90% í 80% sé mikilvæg til að sporna við of miklu útlánastreymi og hækkandi fasteignaverði að undanförnu. Hún segist vonast til að bankarnir taki vel í frumkvæði Íbúðarlánasjóðs til að sporna við verðbólgu og vaxtahækkunum sem hafi komið niður á fólki í fasteignakaupum.

Jóhanna sagði ennfremur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins, að ef krónulækkun á hámarkslánum Íbúðalánasjóðs hefði fylgt í kjölfar lækkunar lánahlutfallsins hefði það komið verst niður á landsbyggðinni en hámarkslán verður óbreytt, 18 milljónir króna.

„Átján milljónir er ekki hátt verð á fasteign eins og staðan er í dag og ef sú upphæð hefði verið lækkuð hefði það verið langt undir verði á litlum íbúðum og bitnað hvað verst á landsbyggðinni."

Jóhanna bendir einnig á, að það hafi verið kallað eftir þessum aðgerðum bæði af hálfu Seðlabanka Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Það er þó ekki bara Íbúðalánasjóður sem hefur leitt verðhækkanir á fasteignamarkaði því það eru ekki síður bankarnir sem hafa leitt þensluna með auknum útlánum á síðustu mánuðum og erlendum lánum til heimilanna. Því er mikilvægt að bankarnir taki þátt í því að draga úr þenslunni ef ef þessi aðgerð Íbúðalánasjóðs á að skila árangri," sagði Jóhanna.

Stór hópur fólks hefur ekki getað sótt inn á almennan lánamarkað

Hún segir, að jafnframt þessu verði félagslegi þáttur húsnæðislánakerfisins efldur, þar með talið leigumarkaðurinn og með sérstökum lánveitingum til fólks undir skilgreindum eigna- og tekjumörkum, samhliða því að skýrar verði skilið á milli almennra og félagslegra lánveitinga.

Jóhanna segir að um tvær ákvarðanir sé að ræða, efling leigumarkaðsins annars vegar og auðveldara aðgengi að lánamarkaðinum hins vegar fyrir ákveðinn hóp fólks.

„Það liggur fyrir, frá því félagsleg lán voru lögð niður árið 2004 hefur stór hópur fólks ekki getað sótt inn á almennan lánamarkað. Ástandið á leigumarkaðinum er líka afar slæmt. Síðast þegar ég vissi biðu um 1800 manns eftir leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu," sagði Jóhanna.

Félagsmálaráðherra mun skipa nefnd sem falið verður að vinna að félagslega þætti húsnæðislánakerfisins og verður frumvarp um það efni lagt fram á komandi þingi.

Jákvæð aðgerð Greiningardeild Kaupþings segir í ½5 fréttum sínum, að frá því lánshlutfallið var hækkað í febrúar og hámarkslán hækkað úr 17 í 18 milljónir, hafi umsvif á fasteignamarkaði aukist umtalsvert og nú sé tólf mánaða hækkun fasteignaverðs komin upp í 9,5%. Fasteignaverð vegi þungt í vísitölu neysluverðs og hafi því verið meginþáttur í hækkun á vísitölu neysluverðs á síðustu mánuðum.

„Að mati Greiningardeildar eru því aðgerðirnar sem félagsmálaráðherra kynnti í dag jákvæðar. Aðgerðirnar ættu að sporna gegn frekari þenslu á fasteignamarkaði og þar með draga úr þeim verðbólguþrýstingi sem enn er til staðar í hagkerfinu," segir í ½5 fréttum.

Félagsmálaráðherra,segir að ef aðgerðir Íbúðalánasjóðs eigi að virka, verði bankarnir …
Félagsmálaráðherra,segir að ef aðgerðir Íbúðalánasjóðs eigi að virka, verði bankarnir að fylgja með í kjölfarið
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert