Forstjóri Haga segir verð á matvöru lægra nú en árið 2002

Finnur Árnason, forstjóri Haga
Finnur Árnason, forstjóri Haga mbl.is/Brynjar Gauti

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir í fréttatilkynningu að í ljósi umræðu um verð á dagvöru undanfarna daga sé rétt að draga fram mikilvægar staðreyndir um þróun verðlags á dagvörumarkaði undanfarin ár. Helsta niðurstaðan er að verðlag á dagvöru hafði nánast staðið í stað á fimm ára tímabili, frá febrúar 2002 til febrúar 2007.  Verðlag er lægra í dag en það var í febrúar árið 2002.

„Þetta þýðir að í ljósi rúmlega 20%  hækkunar á vísitölu neysluverðs á þessu tímabili, hefur verðlag dagvöru dregið verulega úr verðbólgu á þessu tímabili.

Upplýsingar eru fengnar á vef Hagstofu Íslands.
Þar sem veruleg breyting varð á skattlagningu matvara þann 1. mars síðastliðinn eru annars vegar teknar saman upplýsingar um vísitölur frá febrúar árið 2002 til febrúar ársins 2007.  Hinsvegar frá febrúar árið 2002 til júlí 2007.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 21,24% frá febrúar árið 2002 til febrúar ársins 2007.  Á sama tíma hækkaði vísitala dagvöru um 2,70%.  Tveir stærstu kostnaðarliðir verslunarinnar eru laun og húsnæðiskostnaður. Launavísitalan hækkaði um 38,92% á þessu tímabili og húsnæðisvísitalan um 68,59%.

Í kjölfar skattalækkana ríkisstjórnarinnar á matvöru hefur vísitala neysluverðs hækkað um 23,59% frá febrúar árið 2002 til júlí 2007.  Á sama tíma hefur vísitala dagvöru lækkað um 3,55%.  Húsnæðisvísitalan hefur hækkað um 80,70%.  Launavísitalan hefur hækkað um 40.97% á tímabilinu frá febrúar árið 2002 til maí 2007, en ekki er nýrri launavísitala á vef Hagstofunnar.

Launakostnaður og húsnæðiskostnaður eru gjarnan á bilinu 70-80% af kostnaði við rekstur verslana.

Sá atvinnurógur sem dagvöruverslunin hefur ítrekað orðið fyrir undanfarin ár, á því ekki við nokkur rök að styðjast," að því er segir í tilkynningu sem forstjóri Haga hefur sent frá sér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert