Eigandi Goldfinger og dansari á staðnum sýknuð

Ásgeir Þór Davíðsson (til hægri á myndinni) og Brynjar Níelsson, …
Ásgeir Þór Davíðsson (til hægri á myndinni) og Brynjar Níelsson, hrl., verjandi Ásgeirs í málinu. mbl.is/Golli

Eigandi næturklúbbsins Goldfinger og dansari á staðnum voru í dag sýknuð í Héraðsdómi Reykjaness af ákæru um að nektardans hafi verið sýndur á staðnum í lokuðu rými með viðskiptamanni en slíkt er bannað samkvæmt lögreglusamþykkt Kópavogsbæjar.

Segir í niðurstöðu dómsins að enginn ágreiningur sé um staðreyndir málsins þar sem bæði eigandi Goldfinger, Ásgeir Þór Davíðsson, og dansarinn hafi játað að um einkadans hafi verið að ræða. Hins vegar sé hvorki að finna í lögreglusamþykkt Kópavogsbæjar né öðrum réttarheimildum skilgreiningu á því hvað sé átt við með lokuðu rými.

Rannsókn máls þessa hófst með húsleit á veitingastaðnum Goldfinger, Smiðjuvegi 14 í Kópavogi að kvöldi föstudagsins 7. október 2005, samkvæmt úrskurði sem upp var kveðinn í Héraðsdómi Reykjaness 3. s.m. að beiðni sýslumannsins í Kópavogi.

Í skýrslu lögreglu um húsleitina kemur fram að upplýsingar lægju fyrir um að stúlkur dönsuðu fyrir viðskiptavini staðarins einkadans í lokuðu rými. Þegar lögregla kom til húsleitarinnar hafi verið dregið fyrir alla klefa staðarins, níu talsins, með tjaldefni. Lögregluþjónn hafi dregið tjöldin frá næst innsta klefanum. Þar hafi dansarinn sem kærður var verið að dansa fyrir viðskiptavin í nærbuxum einum fata fyrir.

Annar lögreglumaður hafi dregið tjald frá innsta klefanum, og þar hafi stúlka verið að dansa kviknakin fyrir annan viðskiptavin. Þarna hafi mennirnir hafi setið alklæddir í leðurstólum.

Í lögregluskýrslu viðurkenndi dansarinn að hafa verið að dansa nektardans fyrir viðskiptavin í einkaaðstöðu á Goldfinger umrætt sinn. Einkadansinn færi fram í einkaklefa, þar sem hún afklæði sig meðan spiluð sé tónlist. Engar snertingar séu heimilar milli dansara og viðskiptavinar.

Eigandi Goldfinger staðfesti við skýrslutöku að þar færi fram nektardans. Þar störfuðu að jafnaði 15 – 30 stúlkur, sem dönsuðu nektardans, á sviði og í litlum rýmum, sem séu með fasta veggi á þrjár hliðar og hægt sé að draga fyrir rýmin með tjaldi. Hann sagði að dansinn færi ekki fram í lokuðu rými. Auðvelt væri að hafa eftirlit með því hvað fram færi inni í einkadansklefanum með því að svipta tjaldinu frá.

Við upphaf aðalmeðferðar í málinu var upplýst að stúlkan sem hafði verið í hinum klefanum væri farin af landi brott.

Í 4. mgr. 28. gr. lögreglusamþykktar Kópavogs nr. 444/2004 er kveðið á um að við sýningar á nektardansi í næturklúbbum sé þeim sem dansar bannað að vera í lokuðu rými með viðskiptamanni meðan á sýningu standi.

Hvorki er í lögreglusamþykktinni né öðrum réttarheimildum neina skilgreiningu að finna á því hvað átt er við með „lokuðu rými“.

Á fundi bæjarráðs Kópavogs 27. janúar 2004 var lögð fram tillaga að lögreglusamþykkt fyrir Kópavogsbæ í stað þeirrar sem í gildi hafði verið frá árinu 1986. Á fundi bæjarráðs 5. febrúar var lögð fram breytingatillaga við niðurlag 4. mgr. 28. gr. samþykktarinnar þess efnis að hvers konar einkasýningar væru óheimilar.

Tilgangurinn með breytingatillögunni var sagður sá að hnykkja á því að hvers konar einkasýningar á næturklúbbum væru bannaðar. Með slíku orðalagi væri loku skotið fyrir hvers konar útfærslur á einkasýningum á næturklúbbum, og það myndi gera greinina skýrari.

Á fundi bæjarstjórnar 10. febrúar s.á. var tillagan að lögreglusamþykktinni lögð fram til síðari umræðu. Jafnframt var þá til umræðu og afgreiðslu breytingatillagan sem lögð hafði verið fram í bæjarráði 5. s.m. Að umræðum loknum var breytingatillagan borin upp. Að viðhöfðu nafnakalli var hún felld.

„Af þessari niðurstöðu er ljóst að það var ekki vilji meirihluta bæjarfulltrúanna, sem sömdu samþykktina að banna allar einkasýningar, heldur einungis að banna þeim sem dönsuðu að vera með viðskiptavini í lokuðu rými, án þess að það væri á nokkurn hátt skilgreint við hverskonar lokun væri átt.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 36/1988 skal í lögreglusamþykkt, eftir því sem þurfa þykir, kveða á um það sem varðar allsherjarreglu, svo sem reglu og velsæmi á og við almannafæri. Samkvæmt 2. gr. lögreglusamþykktar fyrir Kópavogsbæ er almannafæri skilgreint meðal annars sem staðir, sem opnir eru almenningi, þar á meðal veitingastaðir. Í 2. mgr. 3. gr. samþykktarinnar segir m.a. að enginn megi sýna öðrum áreitni á almannafæra eða sýna af sér ósæmilega háttsemi. Samkvæmt þessu á lögreglan að halda uppi lögum og reglu á veitingastöðum eins og annars staðar á almannafæri í samræmi við hlutverk sitt. Lögreglu ber að hafa eftirlit með því að reglum lögreglusamþykktar sé fylgt.

Ætla verður að megintilgangurinn með þessum reglum sé að auðvelda þeim sem eftirlit hafa með framangreindum stöðum að sinna hlutverki sínu án þess að fyrirstaða sé af hálfu rekstraraðila. Tjöldin sem dregin voru fyrir meðan á umræddum einkadansi stóð var auðvelt að draga frá þannig að eftirlit lögreglu gat gengið snuðrulaust fyrir sig og engum vandkvæðum bundið. Útbúnaður á næturklúbbnum var því ekki með þeim hætti að komið væri í veg fyrir eftirlit með því sem gerðist að tjaldabaki í þeim klefum sem einkadans fór fram.

Bann er lagt við því að einkasýningar á nektardansi fari fram í „lokuðu rými“ innan næturklúbbanna. Skýra verður „lokað rými“ þannig að miðað sé við að það sé ekki lokað með þeim hætti að tálmi eftirliti lögreglu. Eins og aðstæðum hefur verið lýst á næturklúbbnum Goldfinger, verður að telja, að ekki hafi verið um slíka lokun að ræða á klefunum þar sem einkadans fór fram að tálmaði eftirliti lögreglu," að því er segir í niðurstöðu héraðsdóms í dag.

Málsvarnarlaun Brynjars Níelssonar, hrl., skipaðs verjanda Ásgeirs Þórs Davíðssonar,og málsvarnarlaun Guðmundar Óla Björgvinssonar, hrl., skipaðs verjanda dansarans skulu greidd úr ríkissjóði, alls 498 þúsund krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert