Eldur á klettasyllu í Hestagjá

Eldur kviknaði út frá sígarettu sem ferðamaður henti fram af útsýnispallinum á Hakinu í morgun. Eldurinn kviknaði í þurrum mosa á klettasyllu um 10 metrum fyrir neðan brúnina og var nokkuð erfitt að koma þar að vatni. Landverðir brugðust við með að ausa vatni niður en nauðsynlegt var að fá meira vatn og því var kallað á slökkvilið sem dældi miklu vatni niður á sylluna.

Á vef Þingvalla kemur fram að rangt sé haft eftir leiðsögumanni í fréttum á mbl.is að engir öskubakkar séu á Hakinu. Við Fræðslumiðstöðina og fram á Hakið eru 5 ílát þar sem drepa má í sígarettum og setja frá sér. Við Lögberg eru tvö ílát og einnig á öðrum bílastæðum þar sem gengið er inn á þingstaðinn forna.

Einnig má velta því fyrir sér hvort eðlilegt geti talist að henda frá sér rusli og logandi sígarettum ef ekki er ílát nákvæmlega þar sem ferðamaður er staddur, að því er segir á vef Þingvalla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert