Mikill fjöldi við kveðju- og minningarathöfn um Einar Odd Kristjánsson

mbl.is/Sverrir

Mikill mannfjöldi var við kveðju- og minningarathöfn um Einar Odd Kristjánsson, alþingismann, í Hallgrímskirkju í dag. Einar Oddur varð bráðkvaddur þann 14. júlí sl. Útför hans verður gerð frá Flateyrarkirkju laugardaginn 28. júlí klukkan 14:00.

Þeir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Davíð Oddsson, Seðlabankastjóri, Þorsteinn Pálsson, ritstjóri Fréttablaðsins, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Víglundur Þorsteinsson, stjórnarformaður BM Vallár, Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins, Gunnar J. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi og Ásmundur Stefánsson, ríkissáttasemjari, báru kistuna út úr kirkjunni.

Einar Oddur var þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Einar Oddur var 64 ára að aldri og lætur eftir sig eiginkonu, Sigrúnu Gerðu Gísladóttur og þrjú uppkomin börn.

Einar Oddur fæddist á Flateyri 26. desember 1942, sonur hjónanna Kristjáns Ebenezersonar skipstjóra og Maríu Jóhannsdóttur símstöðvarstjóra.

Einar Oddur nam við Menntaskólann á Akureyri. Hann vann sem skrifstofumaður á árunum 1961-65 og sem póstafgreiðslumaður 1965-68. Hann var framkvæmdastjóri Fiskiðjunnar Hjálms hf. 1968-93 og framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Flateyrar 1974-93. Síðar sat hann í stjórnum og var stjórnarformaður í Hjálmi hf., Vestfirskum skelfiski hf. og Kambi hf.

Einar Oddur var fyrst kjörinn á þing árið 1995 og var þingmaður Vestfjarða og síðar NV-kjördæmis allt til dauðadags. Hann hóf ungur afskipti af stjórnmálum og var formaður Sjálfstæðisfélags Önundarfjarðar 1968-79, sat í hreppsnefnd Flateyrarhrepps á árunum 1970-82, var formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestur-Ísafjarðarsýslu 1979-90, formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum 1990-92. Hann var formaður efnahagsnefndar ríkisstjórnarinnar árið 1988.

Einar Oddur sat í fjölmörgum stjórnum um ævina. Hann var formaður Vinnuveitendasambands Íslands 1989-92, sat í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs árið 1995 og í stjórn Grænlandssjóðs síðan 2001. Hann sat í stjórn Vinnuveitendafélags Vestfjarða frá 1974. Á árunum 1983-89 sat hann í varastjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og í stjórn Icelandic Freezing Plant Ltd í Grimsby 1987-89. Hann var stjórnarformaður Vélbátaútgerðarfélags Ísfirðinga síðan 1984 og í stjórn Samtaka fiskvinnslustöðva 1981-96.

Einar Oddur var sæmdur heiðursmerki Fálkaorðunnar árið 1992 fyrir störf að félagsmálum, en Einar Oddur var einn aðalhöfundur hinnar svonefndu þjóðarsáttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert