Dæmdur í 4,5 árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps

Frá vettvangi við Bakkaveg í Hnífsdal
Frá vettvangi við Bakkaveg í Hnífsdal mbl.is/Halldór

Karlmaður var í dag í Héraðsdómi Vestfjarða dæmdur í 4,5 árs fangelsi fyrir tilraun til manndráps er hann skaut að konu sinni að Bakkavegi 29 í Hnífsdal þann 8. júní sl. Til frádráttar kemur sá tími sem maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 9. júní. Maðurinn var dæmdur til þess að greiða eiginkonu sinni eina milljón króna í skaðabætur og 1.436.235 krónur í sakarkostnað.

Föstudagskvöldið 8. júní 2007, kl. 22.53, fékk lögreglan á Vestfjörðum tilkynningu um að maður hefði skotið að konu sinni á heimili þeirra að Bakkavegi 29 í Hnífsdal. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var maðurinn með skotvopn innandyra en konan hafði komist undan og hlaupið í annað hús. Vopnaðir lögreglumenn fóru á vettvang og gerðar voru öryggis­ráðstafanir til að tryggja öryggi nærstaddra. Hlúð var að konunni sem virtist ekki hafa hlotið alvarlega áverka, og hún flutt í sjúkrabifreið á sjúkrahúsið á Ísafirði. Meðan beðið var sérsveitar ríkislögreglustjóra varð lögregla vör við manninn, Ólaf Þór Guðmundsson, í húsinu. Lögreglumaður náði símasambandi við hann sem svo sleit samtalinu. Ólafur kom síðan út úr húsinu í stutta stund. Hlýddi hann ekki fyrirskipunum lögreglu um að leggjast niður og hraðaði sér aftur inn í húsið. Er sérsveitarmenn komu á vettvang náðu þeir tali af Ólafi kl. 01.43, er hann kom í dyragættina, og með hvatningu þeirra fékkst hann til að koma til móts við þá og var hann yfirbugaður kl. 02.17 og handtekinn. Meðan lögregla var á vettvangi hafði skothvellur heyrst úr húsinu. Síðar fundust ummerki um skot á barnastól og gólfi á efri hæð hússins.

Við skýrslutöku hjá lögreglu greini konan frá því að hún væri búin að vera gift Ólafi Þór í 29 ár og eigi þau fjögur börn. Sagði hún að aðdragandi umrædds atburðar væri í raun langur.

Undanfarnar vikur og mánuði hefðu ásakanir hans ágerst um að hún væri honum ótrú. Hann væri haldinn sjúklegri afbrýðisemi, en ásakanir hans eigi alls ekki við rök að styðjast. Þessi afbrýðisemi og langvarandi áfengisneysla hans hefði leitt til þess að forsendur hjónabands þeirra væru brostnar og hefðu þau m.a. átt viðtal við prest vegna þessa. Hún hefði rætt við ákærða um skilnað. Hann hefði ekki tekið það í mál og hún guggnað á því að sækja um skilnað af vorkunnsemi við hann.

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að við ákvörðun refsingar er einkum að líta til þess að brot mannsins beindist að lífi og heilsu konu hans. Ólafur Þór skaut með haglabyssu af stuttu færi og var verknaður hans því stórhættulegur og hending ein að ekki hlaust bani af. Enda þótt líkamlegir áverkar hafi verið litlir hlýtur verknaður sem þessi að hafa mikil áhrif á líf hennar. Samkvæmt sakavottorði mannsins hefur hann ekki áður sætt refsingu en þykir ásetningur hans ekki hafa verið styrkur og einbeittur. „Ekkert verður fullyrt um hvað honum gekk til með verknaði sínum en svo virðist sem hann hafi gripið til byssunnar í örvæntingu yfir því að kona hans hafi ætlað að yfirgefa heimilið. Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af 2. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í fjögur og hálft ár. Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga skal gæsluvarðhald sem ákærði hefur sætt frá 9. júní 2007 koma til frádráttar refsingu," að því er segir í niðurstöðu héraðsdóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert