Stefnir í hálfa milljón erlendra ferðamanna til Íslands í ár

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um rúm 19% fyrstu 6 mánuði ársins, miðað við sama tíma í fyrra, samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð. Mikil aukning var í júní síðastliðnum en þá fjölgaði ferðamönnum um fjórðung á milli ára. Í júní er aukning frá öllum markaðsvæðum.

Frá áramótum til júníloka voru erlendir ferðamenn sem fóru um Leifsstöð 177.831 talsins, samborið við 149.132 í fyrra. Lítilháttar fækkun er frá Bandaríkjunum en fjölgun frá öllum öðrum mörkuðum. Á fyrstu sex mánuðunum eru Bretar fjölmennastir en Bandaríkjamenn og Danir í öðru og þriðja sæti eins og í fyrra.

Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, segir á heimasíðu stofnunarinnar, að vöxturinn komi ekki á óvart en því hafi verið spáð að í lok árs hafi hingað komið yfir 500.000 erlendir ferðamenn í fyrsta sinn. Jafnt og þétt hefur orðið mikil aukning á sætaframboði í flugi, einkum til og frá Evrópu, Norðurlöndum og Bretlandi. Þá hafi aukið gistirými fylgt með og stöðug markaðssetning verið á öllum mörkuðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert