Rífa á vararafstöðina í Elliðaárdal

Varaaflstöðin í Elliðaárdal þykir engin prýði. Hafist verður handa við …
Varaaflstöðin í Elliðaárdal þykir engin prýði. Hafist verður handa við að rífa hana innan skamms. Morgunblaðið/Ómar

Samkomulag hefur tekist um að Landsvirkjun afsali sér þremur lóðum í Elliðaárdal til Reykjavíkurborgar án endurgjalds. Borgin skuldbindur sig á móti til þess að sjá um niðurrif á varaaflstöðinni sem stendur á einni lóðinni. Borgarráð samþykkti þetta á fundi sínum síðastliðinn fimmtudag.

Lóðirnar eru við Rafstöðvarveg 4 og 16, auk óskilgreindrar lóðar við Elliðaár sem talin er 1.350 fermetrar. Samtals ná lóðirnar yfir 15.734 fermetra. Reykjavíkurborg lagði þær til við stofnun Landsvirkjunar á sínum tíma.

Björn Ingi Hrafnsson, formaður borgarráðs, segist ekki gera ráð fyrir því að byggt verði að nýju á lóðunum, heldur bætist þær við það útivistarsvæði sem þegar er í dalnum.

Það hefur staðið til árum saman að rífa varaaflstöðina, enda þykir hún til lýta í landslagi Elliðaárdalsins. Talsvert er af asbesti í húsinu og þarf því að gæta sérstakrar varúðar við þær framkvæmdir.

Árið 1999 sótti Landsvirkjun um leyfi til niðurrifsins og var málinu vísað til umsagnar heilbrigðis- og umhverfisnefndar og Árbæjarsafns. Safnið sá ekki ástæðu til að húsið yrði varðveitt og nefndin fagnaði því að húsið yrði fjarlægt. Þrátt fyrir það stendur stöðin enn.

Björn Ingi gerir ráð fyrir því að hafist verði handa við að rífa stöðina á næstu vikum. Borgaryfirvöld vilja ekki greina frá því hve mikinn kostnað það hefur í för með sér að fjarlægja húsið, því ekki er búið að ganga frá samningum um framkvæmdina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert