Hnúfubakur að leik á Faxaflóa

Hnúfubakur í hástökki á Faxaflóa í vikunni.
Hnúfubakur í hástökki á Faxaflóa í vikunni. mynd/Andri Þór Steingrímsson

Hnúfubakar hafa nokkrum sinnum brugðið á leik í vikunni fyrir farþega í hvalaskoðunarferðum á Faxaflóa. Lítið hefur sést af hnúfubökum á þessum slóðum þar til nú og þeir hafa ekki áður verið jafn líflegir í sumar. Að vonum vekja þessar risaskepnur mikla athygli þegar þær sýna sig, einkum þegar þær taka bakfallsstökk upp úr sjónum.

Eva María Þórarinsdóttir, markaðsstjóri Hvalaskoðunar Reykjavíkur, sagði við mbl.is, að aðallega sjáist hrefnur, hnísur og höfrungar í hvalaskoðunarferðum frá Reykjavík og því hafi hnúfubakadansinn undanfarna daga komið ánægjulega á óvart.

Hnúfubakur er stærstur og þyngstur þeirra hvala sem sjást að jafnaði í Faxaflóanum en hnúfubakurinn getur orðið allt að 17 metrar að lengd og 40 tonn að þyngd. Hnúfubakurinn stekkur gjarnan upp úr haffletinum með miklum tilburðum og tilheyrandi skvettum. Þegar hnúfubakurinn er við fæðuöflun myndar hann oft svokölluð loftbólunet sem sjást ofansjávar. Innan þessara neta lokast bráðin og auðveldar hnúfubaknum að gleypa alla bráðina í einum teyg. Eva María segir, að það sé jafnan mikil sýning séð frá bátunum þegar hvalurinn kemur upp úr sjónum með gapandi ginið.

Hvalaskoðun Reykjavíkur hefur í sumar flutt um 35 þúsund farþega í hvalaskoðunarferðir og eru langflestir þeirra erlendir ferðamenn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert