Steingrímur gagnrýnir stefnu í utanríkismálum

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, lagði fram bókum á fundi utanríkismálanefndar Alþingis í dag þar sem hann gagnrýnir harðlega hvernig bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn heldur á málum hvað varðar breytta stöðu utanríkis- og öryggismála í kjölfar brottfarar Bandaríkjahers af Íslandi.

Segir Steingrímur, að Íslandi sé nú þvælt inn í heræfingar, samningar gerðir við önnur ríki og bandalög, mál sett í farveg og stofnað til mikils kostnaðar í nútíð og framtíð án nokkurra fyrirliggjandi fjárheimilda í lögum og án nokkurrar undangenginnar umræðu og stefnumótunar á sjálfstæðum íslenskum forsendum.

Yfirlýsing Steingríms er eftirfarandi:

    Undirritaður gagnrýnir harðlega hvernig bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórn heldur á málum hvað varðar breytta stöðu utanríkis- og öryggismála í kjölfar brottfarar Bandaríkjahers af Íslandi.

    - Án nokkurrar undangenginnar umræðu og stefnumótunar á sjálfstæðum íslenskum forsendum,
    - án nokkurrar greiningar á þörfum Íslands og hagsmunum,
    - án eiginlegs samráðs við utanríkismálanefnd,
    - án þess að hinn nýi samráðsvettvangur stjórnmálaflokkanna, sem boðaður var þegar hinn 26. september 2006, hafi litið dagsins ljós er Íslandi nú þvælt inn í heræfingar, samningar gerðir við önnur ríki og bandalög, mál sett í farveg og stofnað til mikils kostnaðar í nútíð og framtíð án nokkurra fyrirliggjandi fjárheimilda í lögum.

    Það sem í vændum virðist vera og koma til með að fela í sér útgjöld er m.a.:

  1. Árlegar heræfingar Bandaríkjamanna og einhverra fleiri á grundvelli samninga Íslands og Bandaríkjanna frá sl. hausti með tilheyrandi gistiríkiskostnaði Íslands.
  2. Áframhaldandi rekstur ratsjárstöðvakerfis í hernaðarskyni og úrvinnsla á merkjum á kostnað Íslands frá og með 15. ágúst nk.
  3. Koma orustuflugvéla frá Natóríkjum 4 sinnum á ári í loftvarnarskyni og til æfinga með tilheyrandi gistiríkiskostnaði Íslands.
  4. Tvíhliða samningar við Norðmenn, Dani og mögulega fleiri og gistiríkiskostnaður sem á Ísland fellur vegna heimsókna og eftir atvikum umsvifa þeirra hér.
  5. Kostnaður innlendra aðila svo sem Landhelgisgæslu og lögreglu vegna þátttöku í æfingum o.fl. Ennfremur vísar undirritaður til bókunar í utanríkismálanefnd hinn 24. apríl sl.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert