AFL segist munu grípa til aðgerða bregðist Vinnumálastofnun

Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs.
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs. mbl.is/Steinunn

Ákveðinn hefur verið fundur formanns og framkvæmdastjóra AFLs með Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, á morgun og mun AFL þar leggja fram tillögur um samráð og samvinnu Vinnumálastofnunar og félagsins á félagssvæði AFLs.

Fram kemur í tilkynningu frá AFLi, að á fundi stjórnar sambandsins í dag hafi tilkynningu félagsmálaráðherra um hertar aðgerðir í eftirliti með vinnu erlends launafólks verið fagnað og ennfremur fyrirhuguðu samráði við verkalýðshreyfinguna. AFL muni bjóða fram krafta sína til þess samráðs.

Þá ákvað stjórnin að halda áfram undirbúningi að aðgerðum gegn fyrirtækjum sem hafi erlent verkafólk í vinnu og ekki hafi fullnægt reglum um skráningu og/eða óljóst er um kjör og réttindi starfsfólks.

Stjórn AFLs lýsti einnig fullum stuðningi við yfirlýsingar formanns félagsins og framkvæmdastjóra síðustu daga og jafnframt að verði ekki gripið tafarlaust til harðra aðgerða í vinnustaðaeftirliti af hálfu Vinnumálastofnunar muni félagið grípa til allra þeirra aðferða sem það telji skila árangri til að berjast gegn félagslegum undirboðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert