Má ekki heita Valgard

Mannanafnanefnd (MNN) hefur í úrskurði hafnað nafninu Valgard þar sem rithátturinn -rd brýtur í bága við íslenskt málkerfi. Til að eiginnafn verði samþykkt þarf nafnið að uppfylla fimm skilyrði: Nafnið skal taka íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli og það má ekki brjóta í bága við íslenskt málkerfi. Einnig skal það ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Eiginnafn má ekki vera nafnbera til ama og skilyrði er að stúlkur fái kvenmannsnafn og drengir karlmannsnafn.

MNN hefur úrskurðað að eiginnafninu Berk sé hafnað þar sem það brýtur í bága við íslenskt málkerfi. Nefndin hefur samþykkt nafnið Thór og millinafnið Mýrmann, m.a. vegna þess að það er dregið af íslenskum orðstofnum. Eiginnafnið Úna hefur verið samþykkt en kvenmannsnafnið Kristal þykir líkjast karlmannsnafninu Kristall of mikið og var því hafnað bæði sem eiginnafni og millinafni.

Karlmannsnöfnin Rikki, Haddi og Álfar teljast uppfylla ákvæði laga um mannanöfn og hafa verið samþykkt og jafnframt kvenmannsnafnið Bernódía. Nefndin hefur samþykkt kvenmannsnöfnin Malía, Gísla og Jarún. Millinafnið Austan fékk samþykki nefndarinnar og sömuleiðis eiginnöfnin Ótta, Júlíetta, Sólrós, Matthilda, Karí og Hjörtfríður. Nöfnin Debora og Nenna hafa fengið samþykki auk karlmannsnafnsins Hrafntýr. Olav og Merkúr hafa verið samþykkt og færð í mannanafnaskrá en nöfnunum Jamie, Reese, Carlo, Antonio og Francisco hafnaði mannanafnanefnd.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert