Tveir Bjarnar í steininum

Tveir Íslendingar voru úrskurðaðir í 27 daga gæsluvarðhald í Kaupmannahöfn í gærkvöldi fyrir að reyna að ræna banka á Amagerbrogade í borginni á miðvikudag. Á fréttavef dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 segir, að mennirnir heiti báðir Bjarni og hafi verið illa haldnir af timburmönnum í réttarsalnum.

Saksóknari krafðist gæsluvarðhalds yfir mönnunum til að tryggja að þeir færu ekki úr landi. „Ég hefði stungið af," hefur TV2 eftir öðrum Bjarnanum.

Þeir sögðu dómaranum, að þeir hefðu verið drukknir þegar þeir fóru inn í bankaútibú Nordea með svarta leikfangabyssu og kröfðust peninga. Þeir höfðu enga poka meðferðis og þegar starfsfólk bankans gat heldur ekki útvegað ílát tróðu þeir 84 þúsund dönskum krónum í vasa og sokka.

Flóttinn var stuttur en að sögn TV2 reyndu Bjarnarnir að fela sig í bakgarði skammt frá þar sem lögregla fann þá 15 mínútum síðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert