14 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás og brot á skilorði

Karlmaður á fertugsaldri var í Hæstarétti í dag dæmdur í 14 mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gegn öðrum manni á gamlárskvöld 2005. Í Héraðsdómi Reykjanes hafði maðurinn verið dæmdur í 12 mánaða fangelsi. Með brotinu rauf maðurinn skilorð dóms frá 2003 og í samræmi við hengingarlög var 10 mánaða fangelsi samkvæmt þeim dómi tekið upp og dæmt með og var refsing hans því ákveðin fangelsi í 14 mánuði í Hæstarétti.

Árásarmaðurinn var ásamt bróður sínum í heimsókn hjá foreldrum sínum á gamlárskvöld árið 2005 ásamt sambýliskonum sínum og börnum. Í heimsókn var einnig vinur bróður árásarmannsins, en það er sá sem varð fyrir árásinni. Þeir bræður urðu ósáttir og fóru að slást. Faðir þeirra reyndi að stilla til friðar og stía þeim í sundur. Sá sem varð fyrir árásinni kom honum til hjálpar en hlaut við það högg á andlit með þeim afleiðingum að tvær framtennur brotnuðu og tvær losnuðu. Sauma þurfti neðri vör kæranda með tólf sporum.

Sá sem varð fyrir líkamsárásinni kærði árásarmanninn og viðurkenndi árásarmaðurinn það hjá lögreglu en sagði að það hafi hann gert þar sem honum hafi fundist kærandi vera að aðstoða bróður sinn. Fyrir dómi drógu þeir þennan framburð til baka.

Í dómi Hæstaréttar er vísað til þess að þeir hefðu báðir staðfest fyrir dómi að hafa gefið skýrslur hjá lögreglu þess efnis að árásarmaðurinn hefði framið það brot sem hann var sakaður um. Ekkert væri fram komið sem rýrði sönnunargildi játningar hans og skýrslu fórnarlambsins fyrir lögreglu og var því staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu mannsins sem var dæmdur í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert