Geir H. Haarde: Að taka upp evru einhliða álitið veikleikamerki

mbl.is/Brynjar Gauti

Geir H. Haarde segir mikilvægt að taka ákvarðanir um utanríkismál út frá því hvað sé þjóðinni fyrir bestu á hverjum tíma, og að hann telji að núverandi fyrirkomulag henti best. Hann segir ekki á dagskrá að sækja um aðild að Evrópusambandinu, og að samkomulag sé um það milli stjórnarflokkanna.

Geir sagði í ræðu sinni á fundi í Valhöll í morgun að Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur hafi ólíka stefnu í þessu máli, í Samfylkingunni vilji menn sækja um aðild en sjálfstæðismenn ekki við núverandi aðstæður. Miðað við það sem formönnum flokkanna hafi farið á milli segir Geir ríkisstjórnina ekki munu sækja um aðild, enda sé ekki kveðið á um það í stjórnarsáttmálanum. Hinsvegar standi til að setja á laggirnar nefnd til að fylgjast með þróun mála í Evrópusambandinu, svo hægt sé að bregðast við breytingum, hverjar sem þær kunni að vera.

Einnig sagði Geir engum tilgangi þjóna að ræða um að taka upp evru, ef evra yrði tekin upp einhliða myndi það þýða að Íslendingar yrðu áhrifalausir um gjaldmiðilinn, og að litið yrði á slíkt sem veikleikamerki, og að Ísland yrði þá auðveld bráð spákaupmanna. Hins vegar væri hægt að taka upp evru með því að ganga í Evrópusambandið að uppfylltum skilyrðum og ganga þannig í hóp öflugra ríkja með sterkan seðlabanka. Ger sagði þó enga ástæðu til að ætla að tekið yrði tillit til íslenskra aðstæðna, og því myndi íslenska hagkerfið missa það svigrúm og þann sveigjanleika sem fylgir gjaldmiðli.

Geir sagði mögulegt að endurskoða lög um Seðlabankann, en að vandséð væri hvaða breytingar yrðu til bóta að svo stöddu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert