Vilhjálmur segist ekki hafa séð lista yfir kaupréttarhafa

Vilhjálmur Vilhjálmsson, borgarstjóri, sagði í fréttum Útvarpsins, að listi yfir þá sem fengju kauprétt á hlut í Reykjavík Energy Invest hafi aldrei verið lagður fyrir stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi VG, segir að listinn hafi verið lagður fram á stjórnarfundi OR þar sem fjallað var um samruna REI og Geysir Green Energy.

Vilhjálmur sagði, að Haukur Leósson stjórnarformaður Orkuveitunnar, hafi upplýst sig um að nokkrir starfsmenn REI fengju kauprétt, en ekki hverjir það væru.

Svandís sagði, að hún og Sigrún Elsa Smáradóttir, fulltrúi Samfylkingarinnar í stjórn OR, hafi fengið eintak af listanum á stjórnarfundinum. Síðan hafi skapast umræða um málið. Svandís lagði fram bókun á fundinum þess efnis að kaupréttarsamningar þyrftu að þola dagsljósið. Sú bókun var lesin upp á fundinum og því telur Svandís að allir sem voru á fundinum hefðu átt að vita um hvað var rætt.

Vilhjálmur sagðist hins vegar hafa talið, að þessi bókun gæfi ekki tilefni til aðgerða af hans hálfu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert