Yfir 220 milljörðum varið til félagsverndar

Frá húsnæði Tryggingastofnunar.
Frá húsnæði Tryggingastofnunar. mbl.is/Árni Torfason

Heildarútgjöld til félagsverndar jukust úr 210,4 milljörðum króna árið 2004 í 222,3 milljarða árið 2005 eða um 5,7% milli ára í krónum talið. Með félagsvernd er átt við öll afskipti opinberra aðila og einkaaðila sem miða að því að létta byrðum af heimilum og einstaklingum vegna tiltekinnar áhættu eða þarfar.

Að sögn Hagstofunnar var vöxtur félagsverndar hlutfallslega mestur til málefna öryrkja eða 9% milli áranna 2004 og 2005, sem svarar til 2,7 milljarða króna. Útgjöld vegna aldraðra jukust um 7,8% eða 4,5 milljarða kr. og til heilbrigðismála jukust útgjöld um 5,6% eða 4,0 milljarða kr. Vöxtur á öðrum verksviðum var minni.

Veigamesti málaflokkur félagsverndar hérlendis er heilbrigðismál. Til heilbrigðismála var varið um 35% heildarútgjaldanna en málefni aldraðra voru í öðru sæti með tæp 29%. Í þriðja og fjórða sæti voru útgjöld vegna örorku með rúm 15% og til fjölskyldna og barna með tæp 14%. Til allra annarra verksviða var varið alls tæplega 8% útgjaldanna.

Útgjöld til félagsverndar jukust í krónum talið um 5,6% frá árinu 2004 til 2005 á meðan vísitala neysluverðs hækkaði um 4%. Þegar leiðrétt er fyrir verðlagsbreytingum er vöxtur útgjalda til félagsverndar 1,5% frá árinu 2004 til 2005. Á sama tímabili fjölgaði landsmönnum um 1,1%. Þegar tekið er tillit til mannfjöldabreytinga auk verðlagsbreytinga og útgjöld reiknuð í kr. á íbúa 2005 jukust raunútgjöld til félagsverndar milli áranna 2004 og 2005 um 0,4%. Vöxtur raunútgjalda vegna málefna öryrkja var 3,6%, vegna aldraðra var hann 2,4% og loks var raunútgjaldavöxtur á sviði heilbrigðismála 0,4%.

Útgjöld til félagsverndar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu jukust á tímabilinu 2001 til 2003 úr 19,1% í 22,6%, en 2004 lækkaði hlutfallið lítillega, í 22,3%. Milli áranna 2004 og 2005 lækkaði hlutfall útgjalda til félagsverndar enn frekar, í 21,4% af landsframleiðslu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert