Nýr meirihluti nýtur stuðnings 56,5% borgarbúa samkvæmt könnun

Hinn nýi meirihluti nýtur trausts meirihluta borgarbúa.
Hinn nýi meirihluti nýtur trausts meirihluta borgarbúa. mbl.is/Brynjar Gauti

Flestir þeirra flokka sem standa að nýjum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur njóta töluvert meiri stuðnings nú en við síðustu borgarstjórnarkosningar samkvæmt nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. 56,5% borgarbúa styðja núverandi meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur samkvæmt könnuninni. Mestur er stuðningurinn meðal þeirra sem segjast styðja Samfylkingu, Vinstri græn og Framsóknarflokk.

78,6% þeirra sem segjast styðja Frjálslynda flokkinn styðja nýjan meirihluta. Einungis 4,1 % þeirra sem styðja Sjálfstæðisflokkinn segjast hins vegar styðja hinn nýja meirihluta en 93,9% stuðningsmanna Samfylkingar segist styðja hann, 92,0 % þeirra sem styðja Framsóknarflokkinn segjast gera það og 92,4% þeirra sem styðja Vinstri græn.

Vinstri græn og Samfylking myndu bæta við sig einum borgarfulltrúa hvor væri gengið til kosninga nú. Framsóknarflokkur myndi halda sínum borgarfulltrúa, þrátt fyrir örlítið minna fylgi, en Sjálfstæðisflokkur og Frjálslyndir og óháðir myndu tapa einum borgarfulltrúa hvor. Vinstri græn myndu bæta við sig 6% samkvæmt könnuninni og fá 19,4% fylgi. Samfylking myndi bæta við sig 3% og fá 30,7% fylgi. Frjálslyndi flokkurinn og óháðir myndi tapa 7% af fylgi sínu og fá 3,1%. Fylgi Sjálfstæðisflokksins myndi minnka um 3% og vera 39,4% og fylgi Framsóknarflokksins félli úr 6,3% í 5,8%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert