Bryndís Hlöðversdóttir nýr stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur

Margrét Sverrisdóttir, Dagur B. Eggertsson, Svandís Svavarsdóttir og Björn Ingi …
Margrét Sverrisdóttir, Dagur B. Eggertsson, Svandís Svavarsdóttir og Björn Ingi Hrafnsson

Á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur í dag verður kosið í ráð og nefndir borgarinnar. Í ljósi umræðu undanfarinna daga og vegna fyrirhugaðrar skoðunar á stöðu og framtíð Orkuveitu Reykjavíkur sem verður leidd af pólitískri forystu nýs meirihluta munu kjörnir fulltrúar meirihlutans draga sig úr stjórn fyrirtækisins meðan á skoðuninni stendur og tilnefna þess í stað sína trúnaðarmenn. Fulltrúi Samfylkingarinnar og stjórnarformaður verður Bryndís Hlöðversdóttir aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst, fulltrúi Vinstri grænna verður Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður og fyrir Framsóknarflokkinn tekur Jón Sigurðsson fyrrv. Seðlabankastjóri sæti en hann verður jafnframt varaformaður stjórnar.

Fyrsta verk nýs meirihluta í Reykjavík verður að setja af stað heildarstefnumörkun í málefnum Orkuveitu Reykjavíkur. Á fundi borgarráðs á fimmtudaginn nk. verður skipaður þverpólitískur stýrihópur undir forystu Svandísar Svavarsdóttur sem tekst þetta verkefni á hendur.

Til verkefnisins verða kallaðir óháðir sérfræðingar til að leggja mat á mismunandi leiðir í núverandi stöðu og draga lærdóm af umræðu og gögnum málsins.

Hópurinn mun einnig leggja grunn að ákvörðunum um næstu skref í málefnum Orkuveitunnar, hlut hennar í útrás á orkusviði og stefnu til framtíðar. Í erindisbréfi hópsins er gert ráð fyrir að samráð og samvinna verði haft við aðra eigendur í Orkuveitunni, samkvæmt tilkynningu frá nýjum meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Í stýrihópnum um heildarstefnumörkun um stöðu og hlutverk Orkuveitu Reykjavíkur er gert ráð fyrir að oddvitar allra flokka sem sæti eiga í borgarstjórn Reykjavíkur sitji auk Sigrúnar Elsu Smáradóttur borgarfulltrúa sem mun taka við stjórnarformennsku í fyrirtækinu að endurskoðun lokinni, samkvæmt tilkynningu.

Bryndís Hlöðversdóttir
Bryndís Hlöðversdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert