Þrefað um sölu á léttvíni og bjór á Alþingi

eftir Höllu Gunnarsdóttur

halla@mbl.is LÉTTVÍN, öl og áfengisböl var rætt á Alþingi í gær og raunar svo mikið að ekkert annað mál komst að og sjö þingmenn voru enn á mælendaskrá þegar þingfundi var slitið. Tilefnið var frumvarp sautján þingmanna úr Framsóknarflokki, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki sem felur í sér að verslunum verði leyft að selja léttvín og bjór. Sigurður Kári Kristjánsson, Sjálfstæðisflokki, mælti fyrir frumvarpinu og sagði það ekki vera róttækt í eðli sínu enda væri það nk. málamiðlun þeirra ólíku sjónarmiða sem hefðu verið uppi.

Mjög skiptar skoðanir voru um frumvarpið meðal þingmanna sem tóku til máls og ekki voru það flokkslínur sem réðu. Þannig var Siv Friðleifsdóttir, Framsókn, mótfallin frumvarpinu, m.a. vegna forvarnarsjónarmiða, en flokksbróðir hennar Birkir Jón Jónsson er einn flutningsmanna. Samflokksmennirnir Ágúst Ólafur Ágústsson og Karl V. Matthíasson voru einnig á öndverðum meiði en sá fyrrnefndi er líka meðal flutningsmanna og sagði m.a. að núverandi stefna hefði ekki skilað árangri í að vinna gegn áfengisvandamálum og að opinber neyslustýring hefði ekki virkað.

Sjónarmiðin með frumvarpinu voru einkum þau að leyfa frjálsa verslun með léttvín og bjór og að ekkert benti til þess að það myndi auka neyslu landsmanna. Sala yrði ekki leyfð eftir kl. 20 á kvöldin og fólk undir tvítugu mætti eftir sem áður ekki afgreiða áfengi.

Þingmenn sem voru mótfallnir frumvarpinu höfðu hins vegar áhyggjur af því að aukið aðgengi að áfengi gæti leitt til meiri neyslu og vísuðu til forvarna. Þá greindi með- og mótmælendur á um hvort sala á léttvíni og áfengi í búðum myndi koma sér vel eða illa fyrir smærri byggðarlög og hvort úrval í verslunum myndi aukast eða minnka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert