769 milljónir í aðgerðir vegna manneklu hjá Reykjavíkurborg

Mikil mannekla er á leikskólum Reykjavíkurborgar
Mikil mannekla er á leikskólum Reykjavíkurborgar mbl.is/Ásdís

Meirihlutinn í borgarráði lagði til á fundi í borgarráði í dag að setja 769 milljónir, á þessu ári og því næsta, í aðgerðir vegna manneklu á þjónustustofnunum Reykjavíkurborgar og í aðgerðir til þess að gera Reykjavík að eftirsóknarverðari vinnustað.

Felur tillagan í sér að allir starfsmenn fái hlunnindi auk þess sem 200 milljónum verði úthlutað til stjórnenda til þess að greiða starfsmönnum umbun vegna sérstaks álags út af manneklu.

Foreldri fær forgang fyrir barn sitt á leikskóla eða frístundaheimili á meðan foreldrið vinnur þar.

Metin verður starfsreynsla úr öðrum sveitarfélögum og ríki.

Leikskólastarfsmenn og starfsmenn hjúkrunarheimila, þar sem það á við, fá greidda yfirvinnu fyrir matartíma (hálftíma á dag), sem þeim er skylt að eiga með þjónustuaðilum sínum.

Þar sem tillagan barst ekki tveimur dögum fyrir boðaðan borgarráðsfund í dag þá verður tillagan borin upp aftur á borgarráðsfundi í fyrramálið til samþykktar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert