„Hætta að takast á við fortíðina“

Sjálfstæðisfólk lítur nú á samstarfsslitin í borgarstjórn sem útrætt mál eftir fund stjórna sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík í Valhöll í gærkvöld.

Um 200 manns mættu á fundinn sem haldinn var fyrir luktum dyrum og hélt Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, ræðu og kynnti sjónarmið sín þar. Fundurinn stóð milli kl. 17.30 og 19.15. Geir kvaddi fundarmenn eftir sína ræðu og sagði að því loknu, aðspurður af Morgunblaðinu, hví hann hefði komið á fundinn, að hann hefði talið sér skylt að beita sér fyrir því að fólk sneri nú bökum saman og reyndi að loka því máli sem upp kom, þ.e. samstarfsslitin við Framsókn, og að flokksmenn allir, stjórnir sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík ásamt kjörnum fulltrúum, horfðu fram á veginn og endurskipulegðu sig með tilliti til þeirra nýju hlutverka sem flokkurinn hefði nú tekið að sér.

"Þetta þarf auðvitað ekki að segja fólki, það gera sér allir grein fyrir þessu, en ég vildi koma mínum sjónarmiðum að," sagði Geir. "Ég tel rétt að hætta núna að takast á við fortíðina, heldur horfa fram á veginn og mér heyrist að það sé mikil stemning fyrir því."

Telur Geir nú brýnast að Sjálfstæðisflokkurinn takist á við það að flokkurinn sé kominn í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. "Ég sé það strax að borgarfulltrúarnir eru ákveðnir í því að halda uppi öflugri og málefnalegri stjórnarandstöðu og það er þá verkefnið. Fyrir flokksfólk í Reykjavík er mikilvægt að standa vel að baki þessum kjörnu fulltrúum.

Mönnum hafa verið mislagðar hendur á vissan hátt í þessu REI-máli, það hafa menn viðurkennt. Það hefur haft örlagaríkar afleiðingar m.a. vegna þess að ekki var hægt að treysta á að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins stæði við orð sín gagnvart borgarstjóranum. Nú þurfa menn að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin." Aðspurður hvort hann felli sig alfarið við þau sjónarmið sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa tjáð vegna samstarfsslitanna, sagðist Geir ekki hafa forsendur til annars. "Auðvitað treysti ég mínu fólki í borgarstjórn, það segir sig sjálft."

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert