Ólafur Örn segir ráðherra hafa óskað eftir starfslokum hans

Ólafur Örn Haraldsson
Ólafur Örn Haraldsson

Ólafur Örn Haraldsson, fráfarandi forstjóri Ratsjárstofnunar, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann áréttar að fréttir um að hann hafi gengið á dyr án þess að upplýsa utanríkisráðuneytið um starfslok sín hjá stofnuninni, séu algerlega rangar. Segir Ólafur Örn að utanríkisráðherra hafi óskað eftir því, að hann léti af störfum helgina 13.-14. október.

Yfirlýsing Ólafs Arnar er eftirfarandi:

    Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar undanfarna daga um starfslok mín hjá Ratsjárstofnun, vil ég árétta að fréttir um að ég hafi sem forstjóri Ratsjárstofnunar gengið á dyr án þess að upplýsa ráðuneytið eru algerlega rangar. Hið sanna er að utanríkisráðherra hefur ákveðið að nýr forstjóri verði ráðinn til þess að taka við stofnuninni í breyttri mynd og hafa forystu um þær breytingar sem nú standa yfir. Mér var kynnt þessi ákvörðun utanríkisráðherra í upphafi þessa mánaðar og á fundi okkar föstudaginn 12. október óskaði ráðherra eftir því að ég léti af störfum um þá komandi helgi. Ég varð við því og kom síðan á mánudagsmorgni (15. október) til þess að kveðja starfsfólkið og sendi jafnframt ráðherra og ráðuneytisstjóra tölvupóst um að ég hefði látið af störfum eins og óskað hefði verið eftir. Ráðuneytinu var því ekki aðeins kunnugt um starfslok mín heldur voru þau ákvörðun ráðherrans og á þeim tíma sem ráðherrann óskaði og tilkynnt bæði honum og ráðuneytisstjóra skriflega með tölvupósti.

    Bæði utanríkisráðherra og ráðuneytisstjóri tóku sérstaklega fram á fundum sínum að ánægja ríkti með störf mín hjá Ratsjárstofnun, sérstaklega með þann árangur sem ég ásamt frábæru starfsliði hefði náð í hagræðingu á rekstri stofnunarinnar, eins og fram kom í fréttatilkynningu Utanríkisráðuneytisins.

    Ég óska starfsmönnum og nýjum forystumönnum Ratsjárstofnunar velfarnaðar í áframhaldandi uppbyggingu stofnunarinnar og þakka gott samstarf.

    Virðingarfyllst, Ólafur Örn Haraldsson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert