Norðurlöndin þurfa að vera í fararbroddi í loftslagsmálum

Stórþingið í Ósló þar sem Norðurlandaráðsþingið er haldið.
Stórþingið í Ósló þar sem Norðurlandaráðsþingið er haldið. norden.org/Mikael Risedal

Forsætisráðherrar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna eru sammála um mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið setji sér ný og metnaðarfyllri markmið varðandi aðgerðir gegn loftslagsbreytingum en gert hefur verið fram til þessa. Þá segja þeir að norrænu ríkin þurfi að taka að sér að vera í fararbroddi í þessum málaflokki á næstu árum þar sem loftslagsráðstefna verði haldin í Kaupmannahöfn árið 2009 og Svíar munu brátt taka við forystu innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.

Á fundinum var sett fram gagnrýni á ríkisstyrki norska ríkisins til hlutafélags, sem er að hluta til í einkaeigu, og starfar að rannsóknum á bindingu koltvísýrings. Svaraði Jens Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, því til að reglur Evrópusambandsins um takmörkum ríkisstyrkja megi ekki standa í vegi fyrir sjálfstæðri tækniþróun í mikilvægum málefnum sem þessu.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra Íslands, tók undir það og sagði mikilvægi slíkra rannsókna mikið og að Íslendingar vilji gjarnan koma að þeim með einhverjum hætti.

Þá kom fram á fundinum að ráðherrarnir leggi áherslu á að fleiri ríki komi að markmiðssetningu varðandi takmarkanir gróðurhúsalofttegunda en nú er m.a. Bandaríkin, Brasilía, Indland og Kína.

Forsætisráðherrar Eystrasaltsríkjanna voru einnig spurðir að því hvort ríkin væru í stakk búin til að takast á við svo umfangsmikil verkefni sem baráttan gegn gróðurhúsalofttegundum er og hvort önnur verkefni væru ekki brýnni í heimalöndum þeirra. Svaraði Andrus Ansip, forsætisráðherra Eistlands, því til að reynsla þeirra undanfarinna tveggja áratuga sýni að það geti farið saman að bæta lífskjör og draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Það vakti athygli á fundinum að enginn fulltrúi Dana sat hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert