Upptökur á samskiptum flugmanna og flugturns verða rannsakaðar

Boeing 737-800 þota JetX þar sem hún fór út af …
Boeing 737-800 þota JetX þar sem hún fór út af brautinni. mbl.is/Páll Ketilsson

Rannsóknarnefnd flugslysa (RNF) mun síðar í vikunni rannsaka hljóðupptökur á samskiptum flugmanna Boeing-þotu JetX og flugumferðarstjóra á Keflavíkurflugvelli í aðdraganda lendingar vélarinnar á vellinum í fyrrinótt, en eftir lendinguna rann vélin út af flugbraut.

Í frétt á vef RNF í gær segir að áhöfn vélarinnar, TF-JXF, hafi í aðfluginu fengið þær veðurupplýsingar að bremsuskilyrði á fyrirhugaðri lendingarbraut (02) væru „góð með hálkublettum.“ Í lendingarbruni hafi áhöfnin aftur á móti orðið þess vör að bremsuskilyrði voru ekki eins góð og reiknað hafði verið með.

„Áhöfnin reyndi að hægja á flugvélinni með beitingu knývenda og hámarks handvirkri hemlun. Þegar ljóst var að flugvélin myndi ekki stöðvast fyrir brautarendann beygði flugstjórinn flugvélinni til vinstri af flugbraut 02 og yfir á akbraut N-4 sem liggur þvert á enda flugbrautarinnar. Þar skreið flugvélin til í hálku og hafnaði með hægri aðalhjól og nefhjól utan akbrautar,“ segir í frétt RNF.

Bragi Baldursson hjá RNF, stjórnandi rannsóknarinnar, segir að nefndin hafi þegar rætt við flugmenn vélarinnar og hafi undir höndum þær upplýsingar sem flugumferðarstjórar höfðu um bremsuskilyrði. Næsta skref í rannsókn atviksins væri að rannsaka upptökur úr flugturninum á samskiptum flugmannanna og flugumferðarstjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert