Ríkislögreglustjóri með viðbúnað vegna komu Vítisengla til landsins

Frá aðgerðum lögreglu í gær.
Frá aðgerðum lögreglu í gær. mbl.is/Júlíus

Íslensk lögregluyfirvöld hafa undirbúið aðgerðir vegna komu norrænna félaga í vélhjólasamtökunum Hell’s Angels (Vítisengla) til landsins. Embætti ríkislögreglustjóra, sem fer með yfirstjórn aðgerðarinnar, hefur falið lögreglustjóranum á Suðurnesjum og lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu framkvæmd einstakra þátta aðgerðarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra gerði lögreglan á Suðurnesjum, ásamt lögreglu höfuðborgarsvæðisins og sérsveit ríkislögreglustjóra, húsleit í húsakynnum vélhjólaklúbbsins Fafner MC-Iceland í gær, í tengslum við fíkniefnarannsókn lögreglustjóra Suðurnesja. Sérsveit var kölluð til vegna hættu sem talin er stafa af meðlimum klúbbsins og þar sem húsnæðið hefur verið víggirt. Vegna starfsemi klúbbsins kallaði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu til fulltrúa frá eldvarnareftirliti, rafmagnseftirliti, heilbrigðiseftirliti og byggingarfulltrúa. Á þessari stundu er ekki vitað um viðbrögð þessara aðila.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra bárust fyrir skömmu, upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum, um að til landsins væri stefnt fjölda Hell´s Angels meðlima vegna afmælisveislu sem vélhjólaklúbburinn Fafner MC ætlar að halda um þessa helgi. Afmælisveislan á að fara fram í leiguhúsnæði klúbbsins að Hverfisgötu 61 í Reykjavík. Upplýsingar lögreglu benda til að íslenskum aðilum sé einnig boðið til veislunnar.

Dóms- og kirkjumálaráðherra ákvað í gær, að tillögu ríkislögreglustjóra, að taka upp tímabundið landamæraeftirlit á innri landamærum Schengen svæðisins þar sem þessi atburður og þátttaka Hell's Angels er talinn geta ógnað allsherjarreglu og þjóðaröryggi, að því er segir í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Fram kemur að Hell’s Angels-vélhjólasamtökin haldi uppi skipulagðri glæpastarfsemi víða um lönd. Samtökin falla undir þá skilgreiningu sem í gildi er innan Evrópusambandsins um skipulagða glæpastarfsemi. Fyrir liggur dómur í Kanada þess efnis að Hell’s Angels séu skipulögð glæpasamtök. Félagar í samtökunum hafa víða hlotið þunga dóma m.a. fyrir morð og fíkniefnasmygl.

Vefur ríkislögreglustjóra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert