Siv: Misvísandi yfirlýsingar um loftslagsmarkmið skaða málstað Íslands

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, lýsti í umræðum um utanríkismál á Alþingi í dag, yfir áhyggjum af misvísandi yfirlýsingum ráðherra í ríkisstjórninni um markmið í loftslagsmálum og taldi að þær sköðuðu málstað Íslands.

Siv vísaði til þess, að Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra, hefði lýst því yfir opinberlega að hún telji ekki að Ísland eigi að sækjast eftir svonefndu íslensku ákvæði í tengslum við væntanlegan samning á vegum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál. Í gær hefði Geir H. Haarde, forsætisráðherra, hins vegar sagt á Alþingi, að hann teldi að Íslendingar eigi að freista þess að fá aftur samþykkt íslenskt ákvæði að lokinni næstu samningalotu um takmarkanir við losun gróðurhúsalofttegunda, á grundvelli sérstöðu Íslands, sem viðurkennd var árið 2001.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði að þetta mál væri í undirbúningi í umhverfisráðuneytinu en það sem leggja ætti áherslu á fyrir umhverfismálafund SÞ, sem á að halda í Kaupmannahöfn árið 2009, sé að ná öllum ríkjunum að þessu borði þannig að SÞ geti gert bindandi alþjóðlegt samkomulag, sem bindi ekki síst stærstu þjóðirnar. Þegar því markmiði væri náð sé hægt að kanna hvernig útfæra eigi samkomulagið í smáatriðum.

Siv sagði, að íslenska ákvæðið hefði á sínum tíma náðst fram með þrotlausri vinnu með þeim árangri, að umhverfisráðherrar annarra ríkja sáu, að mun betra var að framleiða ál með umhverfisvænni orku hér á landi en olíu og kolum.

Sagði Siv, að ekki væri hægt að ná íslenska ákvæðinu aftur fram nema ráðherrar, sem færu til þessara viðræðna, beiti sér. „Er það líklegt að þeir beiti sér þegar þeir tala eins og hér hefur komið fram?" sagði Siv og vísaði til þess, að þrír af fjórum lykilráðherrum í þessum málum væru í Samfylkingunni.

Ingibjörg Sólrún sagði, að engar samningaviðræður væru um þessi mál nú heldur um að ná öllum þjóðum að samningaborðinu. Um þetta væru þjóðir, þar á meðal Norðurlöndin, sammála um að ætti að nást fram í Kaupmannahöfn 2009. Síðan gætu menn velt því fyrir sér hvernig vinna eigi úr málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert