Markmiðið að bæta efnahag Landsvirkjunar

Landsvirkjun tilkynnti í dag að fyrirtækið hefði ákveðið að í bráð myndi það ekki ganga til viðræðna við fyrirtæki sem hyggja á byggingu nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi. Þess í stað verði rætt við fyrirtæki er ætli að byggja upp netþjónabú hérlendis, og einnig fyrirtæki á sviði kísilhreinsunar fyrir sólarrafala.

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir tilganginn með þessu fyrst og fremst var að tryggja efnahag Landsvirkjunar. Hann kveðst ekkert geta um það sagt hvaða áhrif þessi stefnubreyting kunni að hafa á áform stóriðjufyrirtækja.

Í tilkynningu frá Landsvirkjun segir, að fyrirtækið hafi í haust átt könnunarviðræður við fjölmörg fyrirtæki sem vilja byggja upp starfsemi á Suður- og Vesturlandi og hafa áhuga á raforkukaupum úr virkjunum þeim sem fyrirhugaðar eru í neðri hluta Þjórsár. Ljóst sé, að eftirspurnin eftir orku sé langt umfram framboð, þannig að ekki verði hægt að mæta óskum allra.

Landsvirkjun segir að raforkukaupendurnir, sem rætt hafi verið við, stundi fjölbreytta starfsemi, svo sem álvinnslu, kísilvinnslu, hreinsun kísils fyrir sólarrafala og rekstur netþjónabúa. Stjórn Landsvirkjunar telji mikilsvert að fyrirtækið fái sem hæst verð fyrir raforkuna, dreifi áhættu og auki fjölbreytni viðskiptavina sinna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert