Dagur fær umboð borgarráðs fyrir eigendafund Orkuveitunnar

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er ánægður með niðurstöðuna.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, er ánægður með niðurstöðuna. mbl.is/Brynjar Gauti

Borgarráð staðfesti á fundi sínum í dag að falla frá því að samþykkja samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, kveðst vera ánægður með niðurstöðuna.

„Borgarstjóri fékk umboð til þess að staðfesta fyrri ákvörðun borgarráðs og stjórnar Orkuveitunnar í þessu máli. Það var góð samstaða um það og ég er mjög ánægður með það,“ sagði Dagur í samtali við mbl.is.

Klukkan 18 í kvöld verður eigendafundur hjá Orkuveitu Reykjavíkur þar sem fyrri ákvarðanir stjórnar OR í málinu verða lagðar fram til staðfestingar.

Dagur segir málið hafa verið samþykkt einum róm. Menn hafi þó skipst á skoðunum um hvaða áhrif þetta hefði á dómsmál Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa Vinstri grænna. Minnihlutinn sat hjá í því segir Dagur.

Jafnframt var samstaða um það í borgarráði að fela borgarstjóra það verkefni að beita sér í viðræðum við ríkisstjórnina, sveitarfélög og meðeigendur í Hitaveitu Suðurnesja um framtíð fyrirtækisins, og að tryggja að auðlindir og almenningsveitur verði í eigu almennings.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert