Börnum sem fá nafn við skírn í þjóðkirkju fækkar

Nafngjöf barna breyttist nokkuð á tímabilinu frá 1996 til 2005 því hlutfall þeirra, sem fengu nafn við skírn í þjóðkirkju lækkaði um 13 prósentur, úr 89,2% árið 1996 í 76,2% árið 2005. Á sama tímabili jókst hlutfall þeirra sem fengu nafn með tilkynningu til Þjóðskrár um tæpar 10 prósentur, úr 6,9% í 16,7%.

Hlutfall þeirra sem fengu nafn við skírn eða með nafngjöf í skráðu trúfélagi á tímabilinu jókst úr 3,9% í 7,1%.

Fram kemur í vefriti dómsmálaráðuneytisins, að hér á landi eru þrjár leiðir til að gefa barni nafn: við skírn í þjóðkirkju, skírn eða nafngjöf hjá skráðu trúfélagi eða með tilkynningu til Þjóðskrár.

Af tæplega 42.000 börnum sem fengu nafn á ofangreindu tíu ára tímabili fengu að meðaltali 83,2% nafn við skírn í þjóðkirkju, 11% með því að send var inn tilkynning þar um til Þjóðskrár og 5,7% með skírn eða nafngjöf í skráðu trúfélagi.

Í núgildandi mannanafnalögum segir að forsjármönnum barns sé skylt að gefa því nafn innan sex mánaða frá fæðingu þess. langstærstur hluti barnanna, 96,6%, hafði fengið skráð nafn í þjóðskrá innan sex mánaða frá fæðingu. um þriðjungur barnanna fékk nafn á öðrum mánuði. Í mannanafnalögum sem giltu á árabilinu 1925-1991 voru engin ákvæði um tiltekinn frest til nafngjafar. dróst þá oft úr hömlu að börn fengju nafn og þótti því eðlilegt með nýjum lögum að tilskilja ákveðin tímamörk svo ákvæði um skyldu til nafngjafar yrðu markviss. Var þar fylgt hliðstæðum ákvæðum í norrænni mannanafnalöggjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert