Sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar segja upp samningi við TR

Allir sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar á Reykjavíkursvæðinu nema einn hafa sagt sig frá samningi við Tryggingastofnun ríkisins, stofnunina. Um er að ræða 19 talmeinafræðinga og segja þeir ástæðuna vera óánægju með samskiptin við Tryggingastofnun. Segjast þeir ekki sjá sér ekki fært að vinna fyrir TR á meðan stofnunin fari offari í eftirliti sínu og standi ófaglega að því.

Í tilkynningu frá Félagi talkennara og talmeinafræðinga segir, að skjólstæðingar geti því ekki vænst endurgreiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir störf sem sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar sinna. Fram kemur, að um sex hundruð börn séu á biðlistum hjá sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum og þörf fyrir þeirra þjónustu sé mjög brýn.

Félag talkennara og talmeinafræðinga segist harma mjög þá stöðu, sem komin sé upp í samskiptum við Tryggingstofnun ríkisins. Rótin að samskiptaerfiðleikunum liggi hjá Tryggingastofnun og hún sé forsvarsmönnum stofnunarinnar kunn. Félag talkennara og talmeinafræðinga muni ekki ganga til viðræðna við samninganefnd Tryggingastofnunar fyrr en lagðar hafi verið fram verklagsreglur eftirlits TR. Þær reglur þurfi að vera skýrar og báðum aðilum kunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert