Ný varnarmálastofnun undirbúin

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. mbl.is/Friðrik

Miðað er að því að setja sérstök lög um nýja varnarmálastofnun sem annist allan rekstur mannvirkja NATO á Íslandi, sjái um varnaræfingar og önnur samskipti.

Þetta kom fram í ræðu, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, flutti á fundi Samtaka um vestræna samvinnu í dag. Sagði Ingibjörg Sólrún, að þegar ratsjárkerfinu hafi verið komið upp á níunda áratugnum hafi það eitt hið fullkomnasta í heiminum enda Ísland þá lykilsvæði í utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar. Mannvirki og búnaður stöðvanna sé eign NATO og um það eignarhald gildi strangar reglur, sem Ísland sem aðildarríki NATO verði að virða.

„Þetta setur hagræðingu með samruna við borgaralegar stofnanir hér heima verulegar skorður. Þá er og mikilvægt að greina skýrlega í sundur hernaðarlega varnarstarfsemi og borgaralega starfsemi. Þess vegna er miðað að því að setja sérstök lög um nýja varnarmálastofnun sem annist allan rekstur mannvirkja NATO á Íslandi, sjái um varnaræfingar og samskipti sem byggjast á öryggistrúnaði innan bandalagsins eða eru liður í samhæfðum viðbrögðum NATO-ríkja," sagði Ingibjörg Sólrún.

Hún sagði, að íslensk stjórnvöld rækju nú loftvarnarkerfið og tækju á sig kostnað sem því fylgdi. Þá byggi Ísland ekki lengur við vernd heldur þurfi að huga sjálft að eigin vörnum.

Eftir að aðstæður breyttust hafi aðgerðir íslenskra stjórnvalda falist fjórum meginþáttum: yfirtöku nauðsynlegrar varnarstarfsemi NATO hérlendis, efldri stjórnsýslu og auknu lýðræðislegu gegnsæi, auknu samstarfi við grannríki og aukinni þátttöku í starfi fjölþjóðastofnana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert