Unnið við að setja upp síur fyrir myndefni á netinu

Embætti ríkislögreglustjóra hefur unnið að því í samvinnu við Barnaheill og netþjónustur, að koma upp síum á myndefni, sem ætti að koma í veg fyrir dreifingu á netinu á myndum, sem tengjast ofbeldi á börnum og barnaklámi.

Þetta kom m.a. fram í svari Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns VG, á Alþingi í kvöld.

Björn sagði, að um væri að ræða hluta af samnorrænu verkefni. Dómsmálaráðherrar Norðurlandanna munu ræða um það á fundi í næstu viku hvernig tekist hafi til.

Björn sagði einnig, að til stæði að koma upp svonefndum rauðum hnappi, sem hægt væri að ýta á til að tilkynna lögreglu um varhugaverð samskipti á netinu, sem gætu skaðað börn.

Steingrímur sagði m.a. að hann hefði verið gagnrýndur fyrir ummæli  um að lögregla ætti að geta beitt sér gegn lögbrotum á netinu. Það væri fjarri sínum huga, að hvetja til einskonar kínverskrar ritskoðunar á netinu en hann hefði aldrei séð nein rök fyrir því, að lögregla fái ekki að beita sér til að reyna að hafa upp á þeim, sem reyna að misnota netið. Öllum unnendum netsins væri þetta ljóst. Undir þetta tók Björn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert