Búið að ráðstafa 645 milljónum

Reuters

Sjávarútvegsráðuneytið er búið að ráðstafa 645 milljónum króna til ýmissa verkefna í sjávarútvegi tengdum aðgerðum ríkisstjórnarinnar  í kjölfar niðurskurðar á þorskkvóta. Þetta kom fram í ræðu Einars Kr. Guðfinnssonar, sjávarútvegsráðherra á fundi með Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

 Af því er 570 milljónir til komnar vegna mótvægisaðgerðanna og sú tala eigi eftir að hækka. Þar af eru 250 milljónir vegna niðurfellingar á veiðigjaldi á þorski á þessu fiskveiðiári en ómögulegt er að segja til um hver upphæðin verður á næsta fiskveiðiári þar sem þetta er tengt afkomu greinarinnar. Hundrað og fimmtíu milljónir króna alls á þremur árum eru til eflingar á togararalli Hafrannsóknastofnunarinnar og 120 milljónir króna skiptust jafnt á milli sex rannsóknastofnana og -setra vítt og breitt um landið.

Vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að efla samkeppnissjóði, hækka framlög til AVS-sjóðsins í fjárlögum 2008 um 50 milljónir króna. Því til viðbótar var ákveðið að verja öðrum 50 milljónum til AVS og nemur þetta því samtals 100 milljónum króna. Auk þessa ákvað ég að hækka framlag til samkeppnisrannsókna Verkefnasjóðs sjávarútvegsins úr 25 milljónum króna í 50 milljónir króna á ári. Auknu rannsóknafé skal fyrst og fremst beint til þorskrannsókna, að sögn Einars Kr.

Að sögn Einars Kr. er togararall Hafrannsóknastofnunarinnar eflt sérstaklega. Búið sé að skipa starfshóp hagsmunaaðila til að fara yfir hvernig það verði best gert. Í starfshópnum eru: Páll Halldórsson og Birgir Sigurjónsson frá FFSÍ, Guðmundur Kristjánsson og Kristján Vilhelmsson frá LÍÚ, Arthúr Bogason frá LS og frá Hafrannsóknastofnun Björn Ævar Steinarsson, Höskuldur Björnsson, Þorsteinn Sigurðsson og Jón Sólmundsson sem leiðir starf hópsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert