Þjóðin klofin í afstöðu til sölu léttvíns og bjórs í matvöruverslunum

Þjóðin virðist vera nokkuð klofin í afstöðu sinni til þess hvort heimila eigi sölu á bjór og léttu víni í matvöruverslunum, en helmingur hennar er hlynntur því og 43% andvíg skv. nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Hefur þeim sem eru hlynntir sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum fækkað um níu prósentustig síðan Gallup kannaði þetta síðast og birti í þjóðarpúlsinum í febrúar 2005.

Á Alþingi er til afgreiðslu frumvarp þar sem lagt er til að einkasala Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins með annað áfengi en sterkt áfengi verði aflögð. Gallup spurði landsmenn hvort þeir væru hlynntir eða andvígir sölu á bjór eða léttvíni í matvöruverslunum. Nokkur munur er á afstöðu kynjanna til málsins, en mun fleiri karlar en konur eru hlynntir því að geta keypt bjór eða léttvín í næstu matvörubúð. Þá eru skýr tengsl milli aldurs og afstöðu svarenda, en hinir yngri eru mun hlynntari tilslökunum í áfengissölu heldur en hinir eldri. Sömu sögu er að segja um hina tekjuhærri, en fjöldi andvígra eykst jafnt og þétt með lækkandi tekjum.

Stuðningur við efni frumvarpsins er mestur meðal fylgismanna Sjálfstæðisflokksins eða 65%, en minnstur meðal kjósenda Vinstri grænna eða 36%. Loks eru þeir sem drekka áfengi mun hlynntari sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum heldur en þeir sem drekka ekki.

Andstaða við sölu á sterku víni í matvöruverslunum er mikil en einungis um 16% þjóðarinnar eru henni hlynnt og 79% andvíg. Er það svipað hlutfall og mældist í könnun Gallup frá 2005.

Gallup spurði einnig hvort fólk væri hlynnt eða andvígt því að lækka aldurstakmark til áfengiskaupa úr 20 árum í 18 ár. Andstaða við lækkun áfengiskaupaaldurs hefur aukist verulega frá árinu 2003 og er nú aðeins rúmur fjórðungur þjóðarinnar hlynntur slíkri lækkun. Nær helmingur þjóðarinnar var hlynntur lækkun aldurstakmarksins þegar Gallup kannaði þetta síðast fyrir 4 árum og birti í Þjóðarpúlsi í desember 2003.

Karlar eru mun hlynntari því að lækka aldurstakmarkið heldur en konur eru, það munar tíu prósentustigum á kynjunum.

Drjúgur meirihluti þeirra sem hafa ekki náð áfengiskaupaaldri er hlynntur því að fá heimild til að kaupa áfengi. Andstaðan við að lækka aldurstakmark til áfengiskaupa eykst hinsvegar með hækkandi aldri. Þá eru þeir sem drekka hlynntari því að lækka aldurstakmarkið heldur en þeir sem drekka ekki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert