Mikil úrkoma í Reykjavík í nóvember

Rigningadagur í Reykjavík.
Rigningadagur í Reykjavík. mbl.is/G.Rúnar

Úrkoman í Reykjavík í nóvember mældist 113 mm og er það um 55% umfram meðallag. Aðeins var þurrt fjóra daga. Veðurstofan segir að ámóta úrkoma hafi mælst í nóvember 2004, en síðan þurfi að fara aftur til 1993 til að finna meiri úrkomu í mánuðinum.

Mjög hlýtt var framan af mánuðinum, en síðan kólnaði og hiti varð nærri meðallagi síðari hlutann. Meðalhiti í Reykjavík mældist 3,1 stig og er það 2 stigum ofan meðallags. Á Akureyri var meðalhitinn 1,2 stig og er það 1,6 stigum ofan meðallags. Á Höfn í Hornafirði var meðalhitinn 1,7 stig og er það í tæpu meðallagi, á Hveravöllum var meðalhitinn -3,3 stig. 

Á Akureyri mældist úrkoman 13 mm og er það aðeins fjórðungur meðalúrkomu. Í nóvember 1995 mældist úrkoman 14 mm á Akureyri, en síðan þarf að fara allt aftur til 1952 til að finna minni úrkomu í þessum mánuði á Akureyri. Þá mældist hún aðeins 3 mm. Úrkoman á Höfn í Hornafirði mældist 134 mm.

Alauð jörð var allan mánuðinn í Reykjavík, en á Akureyri voru aðeins 4 alhvítir dagar, en flekkótt jörð nokkra daga til viðbótar. Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 25 og er það um 14 stundum undir meðallagi. Sólskinsstundir hafa oft orðið færri í Reykjavík. Á Akureyri mældust sólskinsstundirnar 19 og er það 5 stundum umfram meðallag. Meðalhiti á Stórhöfða í Vestmannaeyjum var 3,9 stig (1,4 stigum yfir meðallagi), í Bolungarvík var meðalhitinn 1,6 stig (0,7 stigum yfir meðallagi) og á Egilsstöðum var meðalhitinn 0,1 stig (0,8 stigum yfir meðallagi). Hæsti hiti í mánuðinum mældist á sjálfvirku stöðinni á Skjaldþingsstöðum, 15,5°C. Á mönnuðu stöðinni á sama stað fór hitinn í 15°C.

Lægstur varð hitinn á Brúarjökli þ. 11., -21,1°C, en lægst fór hitinn í byggð í -16,8°C á Grímsstöðum á Fjöllum þ. 25. Sama dag fór hiti niður í -16°C á sjálfvirku stöðinni á Reykjum í Fnjóskadal.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert