Neyðin eykst

Sigrúður Knudsen ræddi við Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, þar sem þær …
Sigrúður Knudsen ræddi við Jóhönnu Sigurðardóttur, félagsmálaráðherra, þar sem þær hittust í Fjölskylduhjálpinni í gær.

„Við finnum fyrir mun meiri þörf en áður, sérstaklega hjá fólki þar sem skerðingin [á bótum lífeyrissjóðanna] bætist ofan á allt saman," segir Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. „Fólk hringir hingað í öngum sínum og það er töluvert um fólk sem hefur ekki sótt um áður."

Fjölskylduhjálpin úthlutar mat vikulega að öllu jöfnu en Ásgerður segir allt að 130 fjölskyldur aðstoðaðar í hverri viku. „Stundum er það meira að segja þannig að þegar líður að lokum er allt orðið tómt. Þá þarf fólk stundum frá að hverfa."

Fjölskylduhjálpin hefur jólaúthlutun sína 12. desember. Þá verður úthlutað jólamat, gosi og sælgæti. Árlega aðstoðar Fjölskylduhjálpin um 1.200 fjölskyldur og nýtur til þess aðstoðar ýmissa einstaklinga og fyrirtækja.

Síðasti reglulegi úthlutunardagur Mæðrastyrksnefndar Reykjavíkur á þessu ári var í gær, en jólaúthlutun hefst 18. desember.

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra heimsótti Fjölskylduhjálpina í gær. „Það er náttúrlega mjög sárt að sjá þá fátækt sem blasir við manni hérna. Það eru alltof margir, sem þurfa að lifa undir skilgreindum fátæktarmörkum," sagði Jóhanna við 24 stundir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert