Hálfs árs fangelsi fyrir að villa á sér heimildir

Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt erlendan karlmann í hálfs árs fangelsi fyrir að  hafa í tæp tvö ár villt á sér heimildir hér á landi með því að þykjast vera annar maður.

Maðurinn var fundinn sekur um að hafa framvísað pólsku vegabréfi á öðru nafni og þannig fengið afhent dvalarleyfi frá útlendingastofnun. Maðurinn falsaði undirskrift á móttökukvittun til lögreglu. Þá sótti maðurinn um dvalarleyfi til útlendingastofnunar í fyrra undir sama nafni. Þá falsaði hann undirskrift undir umsókn um ökuskírteini. 

Fram kemur í dómnum, að rannsókn málsins hafi hafist  20. ágúst eftir að  lögreglu bárust ábendingar frá nokkrum óskyldum aðilum um að maðurinn væri sennilega ekki sá sem hann segðist vera.

Maðurinn hefur haldið því fram, að hann sé sá sem á vegabréfinu greini. Í dómnum kemur fram, að lögregla tók afrit af fingraförum hans og sendi lögregluyfirvöldum í Póllandi til rannsóknar. Þá kom í ljós að fingraförin voru af nafngreindum manni, sem er eftirlýstur í  Póllandi en hann mun hafa gerst sekur um einhvers konar eignaspjöll þar í landi.

Faðir þess mans bar einnig kennsl á son sinn af mynd, sem tekin var af manninum á Íslandi. Tvær konur, sem þekktu manninn áður en hann kom til Íslands, báru einnig vitni.

Segir dómurinn, að með vísan til upplýsinga Interpol í Varsjá um að maðurinn sé eftirlýstur í Póllandi og eigi eftir að afplána þar refsidóm þyki leitt í ljós, að hann hafði ástæðu til að villa á sér heimildir hér á landi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert