Tugir einhleypra kvenna vilja tæknifrjóvgun

Fjöldi einhleypra kvenna sem hafa leitað eftir tæknifrjóvgun hjá ART Medica á síðustu árum hleypur á tugum. Í lögum um tæknifrjóvganir er kveðið á umað kona sem undirgengst tæknifrjóvgun skuli vera í hjúskap, staðfestrisamvist eða hafi búið í óstaðfestri samvist í þrjú ár hið minnsta.

Heilbrigðisráðherra hefur skipað nefnd til að endurskoða lög um tæknifrjóvganir og vonast margir til þess að einhleypum konum verði heimilað að gangast undir tæknifrjóvgun þegar lögunum verður breytt.

„Mér finnst þetta hrópandi óréttlæti, ekki síst í ljósi þess að sömu konur mega lögum samkvæmt ættleiða börn. Því ættu þær þá ekki að fá að verða ófrískar sjálfar með aðstoð sem er í boði?" segir Þórður Óskarsson, sérfræðingur hjá ART Medica, en fyrirtækið er það eina á Íslandi sem framkvæmir tæknifrjóvganir.

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra segir að það sé skýr vilji af sinni hálfu að einhleypum konum verði leyft að gangast undir tæknifrjóvgun. Vinna við breytingar í þá átt sé þegar hafin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert