Lífeyrisþegar fá greiðsluáætlun í janúar

.
. mbl.is/Árni

Lífeyrisþegum mun berast greiðsluáætlun ársins 2008, græna umslagið svonefnda, í byrjun janúar. Fyrsta greiðsla á nýju ári verður lögð inn á reikninga viðskiptavina þriðjudaginn 1. janúar.

Í græna umslaginu kemur fram áætlun um væntanlegar greiðslur frá Tryggingastofnun og þær forsendur sem stofnunin hefur til útreikninga á lífeyrisgreiðslum. Umslagið inniheldur einnig greiðsluáætlun sem sýnir áætlaðar greiðslur yfir árið 2008 deilt niður á hvern mánuð. Jafnframt fylgja leiðbeiningar um hvernig nálgast má greiðsluseðla á vefnum.

Það verða í allt um 45.000 manns sem fá sent heim græna umslagið. Þeir sem hafa óskað eftir að fá greiðsluseðla senda heim fá þá senda eins og venjulega.

Greiðsluáætlunin sem send verður á næstu dögum miðast við núgildandi lög. Í henni er því ekki tekið tillit til þeirra breytinga sem ríkisstjórnin hefur kynnt að fyrirhugaðar séu á lífeyrisgreiðslum á árinu 2008. Að samþykktum breyttum lögum verða sendar nýjar greiðsluáætlanir til þeirra lífeyrisþega sem breytingarnar varða.

Nokkrar breytingar á lífeyrisgreiðslum taka gildi um áramótin samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þær helstu eru þær að skerðingarhlutfall tekjutryggingar lækkar úr 39,95% í 38,35% og tenging við tekjur maka tekur breytingum.

Vefur Tryggingastofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert