Unnið við erfiðar aðstæður

Langjökull.
Langjökull. mbl.is/Loftmyndir ehf.

Björgunarsveitirnar Ok og Heiðar eru nú um fimm km frá fólki sem er situr fast á Langjökli, n.t.t. um 700 metra ofan skálann Jaka. Aftakaveður er á jöklinum og mælist vindhraðinn á bilinu 50 til 60 metrar á sekúndu. Í hviðum hefur vindhraðinn farið upp í 100 m/s samkvæmt vindmæli snjóbíls.

Tveir jeppar frá björgunarsveitinni Ok, með fimm manns innanborðs, og snjóbíll frá björgunarsveitinni Heiðari, með tveimur innanborðs, berjast nú í gegnum óveðrið á jöklinum. Tveir snjóbílar frá Reykjavík hafa jafnframt lagt af til aðstoðar þeim sem þegar eru á jöklinum.

Þeir eru nýfarnir af stað aftur, en beðið var við Geitlandsá eftir að veðrið myndi ganga aðeins niður. Snjóbíllinn komst ekki yfir brúna og fór því á ís yfir ána. Að sögn Davíðs Ólafssonar, hjá björgunarsveitinni Ok, tók kröftuglega í jeppana er þeir fengu öfluga vindhviðu á sig þegar þeir voru að aka yfir yfir brúna. „Þetta er rosalegt veður,“ sagði hann í samtali við mbl.is.

Auk hvassviðris er ofankoma mikil og skyggni því mjög slæmt. Ekki er útlit fyrir að veðrið muni lagast í bráð.

Björgunarsveitarmennirnir eru í talstöðvarsambandi við fólkið á jöklinum. Það var á ferðalagi á sjö jeppum. Það hefur nú komið sér fyrir í einni bifreið til þess að halda sér hita, en það hefur setið fast í allan nótt.

Búist er við því að björgunaraðgerðirnar muni standa yfir í allan dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert