Aðgerðir á vettvangi gengu vel

Slökkviliðsmenn að störfum í morgun.
Slökkviliðsmenn að störfum í morgun. mbl.is/Frikki

Aðgerðir Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í Tunguseli í Breiðholti, þar sem eldur kviknaði í fjölbýlishúsi í morgun, gengu afar vel að sögn  slökkviliðsstjóra. Karlmaður lét lífið og þrennt var flutt á sjúkrahús með reykeitrun. Slökkviliðsmenn komu þremur til bjargar á fjórðu hæð hússins.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, sagði í samtali við mbl.is að um 20 slökkviliðsmenn hefðu verið að störfum þegar mest lét. Tilkynning um eldinn barst kl. 5:47 og voru slökkviliðsmenn frá  öllum stöðvum sendir á staðinn. Slökkvistarfi lauk um kl. 8. Eldsupptök eru ókunn og er málið til rannsóknar hjá lögreglu.

Slökkviliðið var með körfubíl á staðnum sem var notaður til að koma þremur til bjargar á fjórðu hæð fjölbýlishússins, en eldurinn kviknaði í íbúð á þeirri þriðju.  Mikill reykur myndaðist á stigagangi hússins sem leiddi til þess að fólkið á efstu hæðinni komst ekki út með venjulegum hætti.

Að sögn Jóns Viðars var eldurinn staðbundinn við eina íbúð. Hann segir misjafnt hversu mikill reykur barst inn í aðrar íbúðir, sumar hafi t.d. alveg sloppið. 

Mikilvægt að fá aðstoð Rauða kross Íslands

Hann segir að sjálfboðaliðar á vegum Rauða kross Íslands hafi komið strax á vettvang til að aðstoða aðra íbúa fjölbýlishússins er það hafði verið rýmt, en um 20 manns búa í húsinu. Fólkinu var komið fyrir í strætisvagni og stóru hjólhýsi Rauða krossins á meðan slökkviliðið athafnaði sig. Að sögn Jóns Viðars kvartaði einn íbúanna undan vanlíðan og var hann því fluttur á sjúkrahús til skoðunar.

Jón Viðar segir að unnið hafi verið að því að virkja samstarf Rauða krossins og slökkviliðsins. Hann segir að það sé mikil vinna að sinna þeim sem eru í aðliggjandi íbúðum þegar eldur kemur upp í fjölbýlishúsum. Hann segir að Rauði krossinn hafi þessu hlutverki að gegna þegar almannavarnarástand er í gangi. „Verkefni okkar er að virkja þá aðila, sem hafa þar hlutverk, inn í okkar daglegu rútínu. Þannig að þeir fái þjálfun,“ segir Jón Viðar og bætir því við að sú aðstoð sé slökkviliðinu mikilvæg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert