Sigursteinn segir af sér

Sigursteinn Másson á blaðamannafundi í dag.
Sigursteinn Másson á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Brynjar Gauti

Sigursteinn Másson hefur sagt af sér sem formaður Öryrkjabandalags Íslands og sömuleiðis hefur Hafdís Gísladóttir sagt upp störfum sem framkvæmdastjóri sambandsins. Er ástæðan sú, að Sigursteinn varð undir í atkvæðagreiðslu á aukafundi aðalstjórnar ÖBÍ í gær.

Í yfirlýsingu, sem Sigursteinn dreifði á blaðamannafundi í dag segir, að á aðalstjórnarfundi ÖBÍ í gær hafi farið fram afgreiðsla á  skipan nýrrar stjórnar Hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Þar hafi tillögu meirihluta framkvæmdastjórnar sambandsins verið hafnað með eins atkvæðis mun en Emil Thóroddsen, varaformaður ÖBÍ hafi mælt fyrir tillögu minnihluta framkvæmdastjórnar, sem var samþykkt og stungið upp á sjálfum sér í hina nýju stjórn.  Ljóst sé, að ekki sé lengur trúnaður á milli Sigursteins og nýrrar stjórnar í Hússjóði ÖBÍ.

Sigursteinn sagði við Morgunblaðið, að hann treysti ekki því fólki, sem hefði valið sjálft sig í stjórn hússjóðsins og hin nýja stjórn væri handgengin Helga Hjörvar, alþingismanni, sem verið hefur formaður stjórnarinnar undanfarin ár.

„Frá því undirritaður tók við embætti formanns Öryrkjabandalagsins í október 2005 hafa málefni leigjenda hjá Hússjóði ÖBÍ komið reglulega inn á hans borð. Margvíslegar athugasemdir hafa verið gerðar við aðbúnað, aðstæður og þjónustu við leigjendur. Það var mat formanns ÖBÍ og meirihluta framkvæmdastjórnar, að mjög brýnt væri að bæta verulega þjónustu og húsnæðiskost Hússjóðs. Í því ljósi var tillaga meirihluta framkvæmastjórnarinnar sett fram sem hafnað var með 16 atkvæðum gegn 15 á fundinum í gær.

Hússjóður Öryrkjabandalagsins er sjálfsstjórnarstofnun og lýtur því sjálfstæðri stjórn en ÖBÍ og formaður þess geta ekki skotið sér undan siðferðislegri ábyrgð á starfsháttum Hússjóðs. Með því að ÖBÍ skipar 4 af fimm mönnum í stjórn Hússjóðs og ÖBÍ veitir árlega fjármagni til starfseminnar er ábyrgðin enn skýrari. Við þær aðstæður sem uppi eru treystir undirritaður sér ekki til að axla þessa ábyrgð áfram," segir í yfirlýsingu Sigursteins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert