Kröfu um nálgunarbann hafnað

Hæstiréttur hefur staðfest þá niðurstöðu Héraðsdóms Vesturlands um að hafna kröfu lögreglu um að karlmaður sæti nálgunarbanni og fái ekki að koma nálægt eða hafa samband við fyrrum sambýliskonu sína.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að konan og maðurinn skildu eftir 9 ára samborð og hafa síðan deilt um forræði yfir tveimur börnum. Konan sagði að maðurinn  hefði allt frá sambúðarslitum valdið ónæði á heimilinu með daglegum símasamskiptum og SMS-skeytum auk þess sem hann veitti henni eftirför, biði hennar utan heimilis og væri á ferðinni nærri heimilinu.

Í niðurstöðu dómsins, sem Hæstiréttur staðfesti, segir m.a. að óhjákvæmilegt sé að maðurinn og konan hafi þurft vegna barnanna, sem lúti forsjá þeirra beggja, að eiga með sér samskipti af einhverju tagi.

Þá sé allnokkuð um liðið frá því þau SMS-skeyti voru send, sem sérstaklega er vísað til í nálgunarbannskröfunni og ekki liggi fyrir að maðurinn hafi sent slík skilaboð eftir 6. nóvember 2007 eða rétt tæpum tveimur mánuðum áður en nálgunarbannsins var krafist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert