Fagna vasklegri framgöngu í Reykjavík

Félagsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Reykjavík hefur sent frá sér ályktun þar sem vasklegri framgöngu kjörinna fulltrúa þeirra í Reykjavík er fagnað, í því upplausnarástandi sem ríkt hafi síðustu daga.

„Það er sérstakt fagnaðarefni að Tjarnarkvartettinn skuli sýna órofa samtöðu gagnvart þeim sundurlausa hópi sem nú hefur tekið við stjórnartaumum í Reykjavíkurborg. Vinstri græn munu hér eftir sem hingað til vinna öllum stundum í anda félagshyggju og velferðar í borginni og axla ábyrgð gagnvart borgarbúum,“ segir í ályktunni.

Þá er því jafnframt fagnað að búið sé að tryggja varðveislu húsanna við Laugaveg 4 og 6 og að götumynd þess hluta Laugavegar verði varðveitt.

„Málefni þessara bygginga var í ákveðnum farvegi, sem án vafa hefði leitt til varðveislu þeirra og þá með hagkvæmari hætti en flaustur nýs meirihluta hefur leitt til. Jafnframt er minnt á nauðsyn þess að endurskoða skipulag Laugavegar upp að Barónsstíg til að tryggja varðveislu friðaðra húsa á þessu svæði, sömuleiðis að ganga með mikilli varfærni um önnur hverfi í gamla miðbænum í Reykjavík svo götumynd að byggðamunstur verði ekki fótum troðið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert