Verjandi O.J. Simpson með námskeið á Íslandi

Hinn þekkti lögfræðingur og prófessor í refsirétti við Harvard-háskóla, Alan Derschowitz, kemur hingað til lands í byrjun apríl til að halda námskeið í Skálholti á vegum Skálholtsskóla fyrir lögmenn og dómara. Mun hann við sama tækifæri halda opinn fyrirlestur á Hilton hótel Reykjavík á vegum Lögmannafélags Íslands. Það verður auglýst nánar síðar. Eru laganemar háskólanna á Íslandi sérstaklega hvattir til að hlýða á fyrirlesturinn. Samson eignarhaldsfélag er fjárhagslegur bakhjarl að heimsókninni.

Allt milli himins og jarðar

Derschowitz er m.a. þekktur fyrir vandaða kennslu og að koma með beinum eða óbeinum hætti að vörnum þekktra manna í Bandaríkjunum á borð við O.J. Simpson og Mike Tyson, í dómsmálum sem hlutu gríðarlega athygli almennings. Gaf hann út bókina Reasonable Doubts um mál Simpsons nýverið.

Derschowitz lætur sér hins vegar fátt mannlegt óviðkomandi og hefur m.a. látið til sín taka í málefnum Ísraels og Palestínu og hefur skrifað fjölmargar kennslubækur í sínu fagi. Þá skrifaði hann árið 2000 bók um morðmál Gamla testamentisins svo dæmi sé tekið. Bókin heitir á frummálinu Genesis of Justice. 10 Stories of Injustice That led to the Ten Commandments and Modern Morality and Law. Sú bók vakti einmitt áhuga Kristins Ólasonar, rektors Skálholtsskóla, á manninum og setti hann sig í samband við hann og bauð honum í kjölfarið að koma hingað til lands.

„Ég kynntist bókum hans þegar ég kenndi við guðfræðideildina í háskólanum í Freiburg í Þýskalandi,“ segir Kristinn. „Hann hafði þá gefið út bók um morðmál í Gamla testamentinu sem vakti mikla athygli, ekki síst meðal guðfræðinga og lögfræðinga.“ Kristinn segir bókina hafa verið mjög áhugaverða og setti hann sig því í samband við höfundinn, Derschowitz, og skrifuðust þeir á. „Í fyrra spurði ég hann svo hvort hann vildi koma til Íslands og hann var ákaflega áhugasamur um það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert