Öxin fannst og þýfi endurheimt

Lögreglumenn í útibúi Glitnis við Lækjargötu.
Lögreglumenn í útibúi Glitnis við Lækjargötu. mbl.is/Golli

Öxin sem notuð var til að ógna starfsfólki banka í morgun, þegar þar var framið rán, fannst skammt frá vettvangi og þeir peningar sem ræninginn hafði á brott með sér fannst á öðrum tveggja manna sem handteknir voru í Garðabæ skömmu fyrir hádegi. Mun upphæðin hafa verið um 1 milljón króna, samkvæmt upplýsingum mbl.is.

Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn tjáði mbl.is að eins manns, sem grunaður væri um aðild að ráninu, væri enn leitað.

Ránið var framið í útibúi Glitnis við Lækjargötu laust eftir klukkan níu í morgun. Einn maður var að verki, og ógnaði gjaldkerum með öxi. Hann hafði á brott með sér peninga og hljóp af vettvangi.

Skömmu síðar handtók lögreglan mann í húsi Hjálpræðishersins en sá var talinn geta veitt upplýsingar um ræningjann. Í framhaldinu fékk lögreglan upplýsingar um að þrír menn hefðu verið viðriðnir ránið og farið frá húsi Hjálpræðishersins í leigubíl suður í Garðabæ. Þar voru tveir þeirra handteknir og fannst þýfið í fórum annars þeirra.

Mennirnir tveir sem handteknir voru, grunaðir um aðild að ráninu, verða yfirheyrðir í dag. Þriðja mannsins er enn leitað.

Einn mannanna var einnig handtekinn í maí á síðasta ári þegar hann framdi rán í verslun í Kópavogi. Ógnaði hann starfsfólki með járnstöng.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert