Feðgar handteknir fyrir líkamsárás

Danska sjónvarpsstöðin TV2 segir frá því í kvöld að íslenskir feðgar hafi verið handteknir fyrir líkamsárás í Langebæk, skammt frá bænum Vordingborg á Sjálandi. Mennirnir eru sagðir hafa ferðast um 2.500 kílómetra leið frá Reykjavík til að hitta þann sem ráðist var á.

Að því er fram kemur á fréttavef TV2 er fórnarlambið sambýlismaður fyrrum eiginkonu árásarmannsins.

Feðgarnir réðust á manninn á heimili hans og veittu honum m.a. áverka með járnröri. Konan hringdi meðan á árásinni stóð á lögreglu og voru feðgarnir, fimmtugur karlmaður og átján ára sonur hans, handteknir á staðnum. Sá sem ráðist var á hlaut nokkra áverka  og var fluttur á sjúkrahús.

Feðgarnir hafa síðan verið látnir lausir þar sem ekki þótti ástæða til að krefjast gæsluvarðhalds, en eiga yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi ef þeir verða fundnir sekir um árásina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert