Í fangelsi vegna barnakláms

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í 13 mánaða fangelsi, þar af 10 mánuði skilorðsbundið, fyrir að vera með í tölvu sinni 14.713 ljósmyndir og 207 hreyfimyndir, sem sýna börn á kynferðislegan og klámfenginn hátt.

Skilorðið er háð því, að maðurinn haldi áfram viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi, svo lengi sem það er til nauðsynlegt að mati sálfræðings til að vinna bug á hneigð hans til barna. Maðurinn var árið 2002 dæmdur í 7 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislega áreitni við barn og rauf skilorð þess dóms með brotunum, sem hann var nú dæmdur fyrir.

Myndirnar fundust í október árið 2006. Í dómnum segir, að meginhluti myndanna sýni grófa misnotkun á börnum og teljist brotin því stórfelld, en á hinn bóginn verði litið til tiltölulega ungs aldurs mannsins og að hann hafi játað brot sitt greiðlega. 

Þá er maðurinn nú í góðri vinnu og á unnustu. Þá leitaði  hann sér sálfræðilegrar aðstoðar vegna fyrra málsins og leitaði sér aftur af sjálfsdáðum aðstoðar vegna síðara málsins og hefur verið í sálfræðilegri meðferð vegna þess. Haft er eftir sálfræðingi, að dregið hafi úr líkum á að maðurinn brjóti af sér aftur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert