Menntasmiðjan slegin af

Áætlað er að Menntasmiðjan á Akureyri, sem sinnir almennri símenntun, verði lögð niður í núverandi mynd frá næsta hausti. Unnið er að því að hluti hennar verði sameinaður Starfsendurhæfingu Norðurlands (Byr). „Þessa ákvörðun hefur samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar tekið án nokkurs samráðs við starfsfólk Menntasmiðjunnar,“ segir Valgerður Bjarnadóttir, sem átti upphaflega hugmyndina að stofnun Menntasmiðjunnar og hefur kennt þar í fjórtán ár.

Þorbjörg Ásgeirsdóttir, forstöðufreyja Menntasmiðjunnar, sagðist hafa fengið þau tilmæli „að ofan“ að tjá sig ekki um málið við fjölmiðla.

Valgerður Bjarnadóttir segir það synd að leggja eigi Menntasmiðjuna niður enda hafi hún lengi verið skrautfjöður bæjarins. Hún segir ljóst að andi Menntasmiðjunnar muni ekki svífa yfir sameinaðri símenntunarstofnun. „Byr er allt annað fyrirbæri en Menntasmiðjan. Í Menntasmiðjunni er þjónustan persónulegri enda er hún fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í námi eða stendur á einhvern hátt á tímamótum. Byr er meira eins og hefðbundinn skóli,“ segir Valgerður.

„Að baki þessu starfi liggur mikil fagleg þróunarvinna og það er sárt að sjá öllu því góða starfi kastað. Ég vona að ákvörðunin verði endurskoðuð,“ segir Valgerður.

Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri á Akureyri, segir að verið sé skoða hvernig hægt sé að sameina alla fullorðinsfræðslu á Akureyri undir einn hatt en enn hafi ekki verið ákveðið hvernig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert